152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[22:38]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og fyrirspurnina. Það er að vísu þannig, þótt þetta hafi ekki fjárhagslegar afleiðingar fyrir ríkissjóð, að ríkissjóður þarf að staðgreiða, getum við sagt, og fær þetta síðan til baka á einhverjum tíma þannig að þetta jafnast út. Síðan geta menn velt því fyrir sér hvort þetta sé nægjanlegur hvati en ég hef alla vega ekki heyrt í meðförum málsins áhyggjur af því. Svo held ég nú að það verði af mjög mörgu að taka þegar kemur að þessum málum og málaflokki til þess að búa til hvata, fjárhagslega hvata, til að ýta undir orkusparnað og bætta orkunýtingu. Ég biðst velvirðingar á því en ég man ekki hvort hv. þingmaður er í atvinnuveganefnd (EÁ: Nei, því miður.) en ég treysti hv. atvinnuveganefnd til að fara vel yfir málið og velta upp þessum þáttum sem er fullkomlega eðlilegt að hv. þingmaður geri. Hann er eins og aðrir sem hér hafa talað áhugamaður um að þetta nái fram að ganga af því að ávinningurinn er augljós. Þegar ég sá þetta mál þá var mín fyrsta spurning: Af hverju er ekki búið að gera þetta fyrr?