152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[22:42]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans seinna andsvar. Ég hvet bara hv. nefnd til þess að fara vel yfir þetta. En ég vek líka athygli á því að þetta er ekki það eina sem við þurfum að gera. Við þurfum að taka á mjög mörgum þáttum til þess að ná loftslagsmarkmiðunum. Í þessu tilfelli erum við að slá margar keilur í einu höggi, en eins og ég nefndi áðan í andsvari við hv. þm. Bergþór Ólason þá megum við ekki heldur missa sjónar á því að leita að heitu vatni. Reyndar er það þannig að okkur liggur meira að segja á hér á höfuðborgarsvæðinu því að þar þurfum við meira. Sama á við flest þessi svæði sem núna eru að nota rafhitun, þar eigum við líka að skoða aðrar leiðir, ekki bara fyrir heimili heldur auðvitað líka fyrir atvinnustarfsemi.