152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[22:46]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir andsvarið. Stutta svarið er já. En ég vildi nota tækifærið þar sem ég hef nokkrar sekúndur hérna til að ræða það sem við þurfum alltaf að vera meðvituð um. Hv. þingmaður nefndi ofgnótt og það er aldrei ofgnótt. Við verðum að vera mjög vakandi yfir því að vakta auðlindirnar. Þegar ég kom að þessu með beinum hætti fyrir um tveimur áratugum síðan, eða einum og hálfum kannski, var lögð mikil áhersla á það og ég vona að það sé þannig áfram. En maður þarf að kanna alveg sérstaklega að við séum að gera það. Þegar kemur að jarðhita og jarðvarmanum þá höfum við fram til þessa borið gæfu til þess að fara þannig með auðlindina að hún sé endurnýjanleg. Ég hef komið í jarðvarmavirkjun annars staðar í heiminum þar sem það var ekki gert og það tekur mjög langan tíma að ná því aftur upp. Ég nefndi það áðan í þessari umræðu og ég nefni það alltaf þegar kemur að loftslagsmálum að við þurfum að gera alveg ótrúlega margt. Spara orku og fara betur með orku er eitt af því. Það skiptir engu máli hvar það er. En sem betur fer er ein auðlind sem við þurfum ekki að spara og er til ofgnótt af. Það er hugvitið. Það er okkar mesta auðlind og það er nú bara þannig, en við höfum verið mjög spör á að segja frá því, að þegar við fórum að nýta jarðvarman til hitaveitu þá vorum við nokkurn veginn þau einu í heiminum sem gerðum það. Það voru íslenskir aðilar sem fundu allra handa leiðir vegna þess að þú pantaðir ekki úr neinum katalógum hitaveitukerfi eða slíkt fyrir Reykjavík eða aðra staði. Við eigum að leggja áherslu á það að nýta þessar auðlindir okkar með þeim hætti sem best er, ekki bara fyrir okkur sjálf heldur til að hjálpa til að nýta þær annars staðar í heiminum. Reyndar er það þannig að ef allir myndu nýta heitt vatn til húshitunar eins og við gerum þá væri engin loftslagsvá. Stærsta hitaveita í heimi er ekki lengur í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu, hún er í Xianyang í Kína, það er samstarf íslenskra og kínverskra fyrirtækja, og sparnaðurinn við útblástur þar, í þessari einu litlu borg í Kína, er jafn mikill og allur útblástur okkar Íslendinga.