152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[22:51]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé um gríðarlega mikilvægt mál að ræða fyrir svæði sem eiga ekki kost á ódýrri hitaveitu og ég tel að þessi umhverfisvæna orkuöflun sem hér er verið að hvetja til sé mikilvæg. En ég tel hins vegar að styrkur ríkisins til íbúðareigenda, eins og kom fram í andsvari mínu áðan, sem jafngildir einungis helmingi kostnaðar við kaup á tækjabúnaði sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun og einungis að hámarki 1 millj. kr., sé ekki nægjanlegur. Ég tel ávinning ríkisins eiga að fara beinustu leið til þeirra sem eru að fjárfesta í þessum tækjabúnaði. Þar bendi ég á að útgjöld ríkisins af niðurgreiðslunum munu lækka. Þessi mismunur ætti raunverulega að fara beint í útgjöldin við kaup á tækjabúnaðinum þar sem ríkið þarf ekki að hagnast með nokkrum hætti á útgjöldum íbúanna. Þá mun líka losna um, eins og ég sagði áðan, 110 GWst sem er gríðarlega mikið magn raforku sem samsvarar notkun 50.000 rafbíla. Einnig það að þessar 110 GWst munu fara í hærri virðisaukaskattsflokk þannig að bæði lækka útgjöld ríkisins og ríkið fær meiri tekjur við fjárfestingu hjá aðilum sem borga helming af kostnaði við tækjabúnaðinn. Ég er því miður ekki í atvinnuveganefnd en ég skora á ráðherra að skoða þetta frekar og fá frekari upplýsingar um þetta mat ráðuneytisins að styrkurinn sé 50%, hvort hann ætti ekki að vera hærri. Það munar um hverja prósentu fyrir kaupendur búnaðarins og það myndi auka hvatninguna. Svo eru þetta líka einungis tímabundin útgjöld. Það kemur fram í frumvarpinu að Orkustofnun áætlar að varmadæluverkefnið nái einungis til 7.800 varmadæluverkefna, þ.e. bæði tækjabúnaður og uppsetning, og útgjöldin muni bara aukast til skemmri tíma.

Þetta er mikilvægt mál. Ég er þingmaður Norðvesturkjördæmis og ég sé að þetta er mjög mikilvægt mál fyrir Vestfirðinga og íbúa á Norðurlandi líka, í Húnavatnssýslum og í Skagafirði sem eru á köldum svæðum. Ég tel líka að þetta sé mjög mikilvægt fyrir landsbyggðina í heild og sé hluti af því að jafna búsetuskilyrði. Ef það á að gera þetta hratt og örugglega þá er eina leiðin að hækka prósentuna. Það er ekki nægjanlegur hvati með þessum 50%. Eins og kom fram í andsvari hæstv. ráðherra áðan þá er maður svolítið hissa að svona mál sé ekki löngu komið en gott að það sé nú komið fram.

Það er eitt atriði í frumvarpinu sem ég vil vekja athygli á sem varðar styrkinn. Í andsvörum spurði hv. þm. Bergþór Ólason út í varmadælurnar og hvers konar tækjabúnaður væri styrkhæfur. Það kemur fram í frumvarpinu, í athugasemd um 1. gr., að það séu varmadælur, einnig sólarrafhlöður, vindmyllur og hitastýringartæki og einnig styrkhæfur búnaðar utan dyra sem þarf að setja upp og tengja. En svo kemur fram að kostnaður við breytingar sem þarf að fara í á hitakerfum innan dyra, t.d. ofnakerfum og fleira, er ekki styrkhæfur. Það er klárt mál að ofnakerfi geta líka verið þannig að þau spari orku, þar sem orkan kemur endanlega. Ég vil benda á í þessu sambandi að í núverandi kerfi, og það kemur fram í athugasemdum við 5. gr., er veittur styrkur, byggður á útreikningum á sparnaði sem verður, vegna kostnaðar við einangrun, svo sem glugga, hurðir og annað slíkt sem er innan dyra. Þessi styrkur hér er þá meira takmarkaður eða ég tel að hann feli í sér takmörkun. Það er bara verið að styrkja tækjabúnaðinn til að kaupa orkuna en ekki einangrun og aðrar orkusparandi aðgerðir innan dyra. Ég velti því upp hvort það geti verið að verið sé að falla frá styrkjum til einstaklinga, íbúðareigenda sem kaupa glugga og fleira sem sparar orkunotkun innan dyra. Það væri vert að atvinnuveganefnd, ef fulltrúi atvinnuveganefndar er hér í salnum, skoðaði sérstaklega hvort verið sé að draga úr styrkjum til íbúðareigenda hvað þetta varðar. Það væri mjög áhugavert því þetta frumvarp varðar einungis styrki til tækjakaupa en ekki til orkusparnaðarins almennt. Þú getur keypt tækjabúnaðinn en samt verið í húsnæði sem er mjög orkukrefjandi vegna þess að það er ekki nægjanlega einangrað.

Þetta eru alls ekki háar fjárhæðir sem eru hér undir. Í frumvarpinu segir:

„Gert er ráð fyrir að mismunur útgjalda til skamms tíma verði fjármagnaður með auknu 50 millj. kr. árlegu útgjaldasvigrúmi á málefnasviði 15 Orkumál frá og með 2023 og það sem eftir stendur með ráðstöfun fjárheimilda af málefnasviði 17 Umhverfismál sem ætlaðar eru til orkuskipta.“

Hér er því ekki um háar fjárhæðir að ræða og það kemur fram í frumvarpinu að þetta er ekki talið hafa nein fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð. Þetta eru algerir smápeningar fyrir ríkissjóð ef þetta eru þá í raun útgjöld í sjálfu sér, eins og ég sagði áðan, miðað við minnkaður niðurgreiðslur og auknar tekjur. Ég tel að ríkið eigi bara út frá jöfnun búsetuskilyrða og orkuskiptum að hækka prósentutöluna. Ég segi ekki 100% en fara a.m.k. upp í 75 eða 80%, a.m.k. skoða þann útreikning. Mér finnst þessi tala bara svolítið vera fundin upp án útreikninga. Það kemur a.m.k. ekki fram í greinargerðinni með frumvarpinu að lagst hafi verið í einhverja útreikninga.

Ég tel þetta mjög mikilvægt og þarft mál og ætti að vera löngu komið fram. Ég velti því þó fyrir mér hvort þessi styrkur til tækjakaupa komi niður á styrkjum sem lúta að orkusparnaði almennt þar sem húsnæðið er þannig að það þurfi minni orku, það virðist vera að verið sé að falla frá þeim styrkjum.