152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[22:59]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Það er mjög gott að vita að ekki sé verið að falla frá öðrum styrkjum, það sé verið að bæta við styrkjum til tækjakaupa. Ég get ekki setið á mér, hér er verið að hvetja til umhverfisvænnar orkuöflunar og bættrar orkunýtingar en það er einmitt umfjöllun um orkupakka fjögur sem við munum ræða síðar á kjörtímabilinu, vonandi ekki ef ríkisstjórnin ákveður að falla frá því að innleiða þann pakka. Þetta sýnir að íslenska ríkið er fullfært um að setja löggjöf sem lýtur að bættri orkunýtingu. Í þeim pakka eru reglugerðir um bætta orkunýtingu. Það er einmitt svona sem fullvalda ríki, með fullveldi í orkumálum, eiga að beita löggjöf sinni, innlendri löggjöf, til bættrar orkunýtingar. Við þurfum ekki að vera að fá reglur frá Brussel hvað það varðar. Við getum sett reglur sjálf um það og þetta er klassískt dæmi um það og mjög góð löggjöf. Ég bara gat ekki setið á mér að nefna þetta hér í andsvörum, ég ætlaði að koma þessu að í ræðu minni en ég læt þetta koma fram sem svar við andsvari hæstv. ráðherra.