152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[23:02]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra síðara andsvar sitt. Ég veit að við munum ræða um orkunýtingu og orkupakka fjögur síðar á kjörtímabilinu. Þetta frumvarp er góð sönnun þess hversu óþarfur sá pakki er. Ég fagna því líka að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ætli að leggja áherslu á orkunýtingu. Sem íbúi hér í Reykjavík þá ólst maður áður upp við heitt vatn sem mjög ódýra auðlind og það er kominn tími til að við förum að umgangast þá auðlind af mikilli virðingu og menn hugleiði bætta orkunýtingu á heita vatninu líka og á öllum sviðum. Þetta er gríðarlega verðmæt auðlind. Nú er orkukrísa í Evrópu og ég tel að orkuauðlindin, raforkan, sé verðmætari auðlind en fiskveiðiauðlindin. Ef við náum að stýra því algjörlega sjálf verður það til mikillar velsældar og hagsældar fyrir íslenskt samfélag, líkt og okkur hefur tekist með stóriðjustefnuna. Það er það sem upplýsingabyltingin byggir á, á raforku. Við eigum gríðarlega auðlind þar. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið og fína framsögu á þessu góða máli.