152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[23:11]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að fagna því að verið sé að horfa til fleiri leiða til að hita upp húsnæði með umhverfisvænni orkugjöfum. Við erum ótrúlega heppin hér á Íslandi að hafa hitaveitu á mörgum stöðum en það er því miður ekki þannig alls staðar á landinu og kostnaðurinn því hár þar sem slíkt er ekki mögulegt. Hafandi búið erlendis þá kannast maður við aðrar aðferðir, t.d. varmadælurnar sem eru mikið notaðar á vesturströnd Bandaríkjanna. Það er ánægjulegt að sjá að verið sé að útbúa leiðir fyrir fólk til að geta keypt þann búnað og fengið styrki og ég held að það sé alltaf af hinu góða. En eins og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir nefndi þá er mikilvægt að hugsa ekki bara um íbúðarhúsnæðið heldur líka skóla og opinberar byggingar og annað. Það er kannski þar sem hægt er að ná enn meiri sparnaði og enn betri afköstum. Það sem ég myndi beina til umhverfis- og samgöngunefndar þegar þau skoða þetta … (Gripið fram í: Atvinnuveganefndar.) — Nú, er ég að fara að fá þetta í atvinnuveganefnd? Þá bara beini ég því til sjálfs míns í nefndinni að skoða það að hér er talað um að styrkir séu samningsbundnir til 15 ára. Ég myndi halda að á næstu 15 árum verði alls konar aðrar tækninýjungar komnar í gagnið þegar kemur að möguleikum á því að hita upp hús. Það er kannski verið að binda okkur svolítið mikið ef við segjum: Þú færð varmadælu núna en kannski ekki varmadælu og eitthvað annað til viðbótar sem kannski gæti lokað bilinu, því það var talað um að hægt væri að nýta þessa tækni til að hita upp, ef ég man rétt, frá helmingi og upp í fjóra fimmtu af því sem þörfin er. Hvað ef við fáum aðra tækni sem brúar það bil og við getum losnað undan því? Það eru kannski svona hlutir sem við þurfum að skoða og við gerum það þá þegar málið kemur til umræðu í atvinnuveganefnd.