152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

583. mál
[23:22]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja aðeins út í hugmyndir sem var hleypt inn í samráðsferlið af Ungum umhverfissinnum sem mér þykja áhugaverðar. Mig langar að heyra frá ráðherranum hvernig fjallað hafi verið um þær í ráðuneytinu og brugðist við. Ungir umhverfissinnar leggja áherslu á að tilgreina þurfi skýrt hvaða skilyrði svona tæknileg aflaukning skuli uppfylla og hvaða aðgerðir falli innan tilsettra skilyrða. Þetta litast kannski af ákveðnu vantrausti sem eðlilega ríkir hjá náttúruverndargeiranum á Íslandi gagnvart hugmyndum um að losa um hömlur í regluverkinu sem gildir um þessa starfsemi en er líka, að ég held, hvar sem við stöndum, eitthvað sem er umræðunnar virði, að lagasetningin sé skýr varðandi það hvað hún nær utan um. Í umsögn Ungra umhverfissinna er því t.d. velt upp hvort taka eigi fram aukna afkastagetu véla, bætta gufunýtni og nýtingu umframrennslis, bara til að girða fyrir að þetta verði notað eins og hjáleiðin sem hæstv. ráðherra nefndi að þetta ætti akkúrat ekki að vera. Svo finnst mér kannski ekki síður skemmtileg sú uppástunga Ungra umhverfissinna í umsögn sinni að leggja til að leyfileg tæknileg aflaaukning verði miðuð við ákveðið hlutfall af uppsettu afli virkjunar þannig að það sé ekki það sama að bæta 100 MW við aflgetu virkjunar sem upphaflega er 50 MW eða 500 MW. Hvernig hafa þessi tvö atriði verið afgreidd innan ráðuneytisins?