152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

583. mál
[23:24]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Samkvæmt frumvarpinu er það hlutverk Orkustofnunar að meta þessar stækkanir og ég held að viðbrögð flestra séu þau að þetta sé mjög góð leið til að ná í aukna orku án þess að það þurfi að vera einhverjar sérstakar deilur um það. Þessi dæmi sem ég tilgreindi í framsöguræðu minni eru raunveruleg dæmi og það er mjög gott fyrir okkur að fá bæði uppsett afl og gígavattstundirnar án þess að þurfa að fara í nýjar virkjanir. Ég held að það sé eitthvað sem við fögnum. Það þarf hins vegar að hafa það í huga, af því hv. þingmaður var að tala um uppsett afl, megavöttin — það segir ekki alltaf alla söguna eins og kom fram þegar við bárum þessa kosti saman. Það var lágt uppsett afl í jarðvarmavirkjuninni en mikið af gígavattstundum, en því var öfugt farið þegar kom að vatnsaflsvirkjuninni. En aðalatriðið er þetta í mínum huga: Þetta er góð leið til að nýta betur það sem við höfum. Menn geta þess vegna kallað þetta orkusparnaðarfrumvarp ef menn vilja.