152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

583. mál
[23:26]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það verður hlutverk Orkustofnunar að meta umsóknir, bendir ráðherrann eðlilega á, en Orkustofnun gerir það auðvitað á grundvelli einhverrar leiðsagnar frá löggjafanum t.d., og það er það sem ég var að spyrja um sem ekki var svarað, hvort löggjafinn eigi að gefa einhverjar skýrari leiðbeiningar í þessum lögum varðandi það hvað myndi falla undir þessa regnhlíf, hvort það eigi að vera ákveðnar tilteknar aðgerðir eða tegundir aðgerða sem falla þarna undir. Eins hvort sú stækkun eigi að vera í einhverju hlutfalli við umfang virkjunarinnar sem fyrir er, hvort sem við miðum við uppsett afl eða hvað annað sem við miðum við. Mig langar svo að spyrja, vegna þess að hér er verið að bæta þætti inn í lög um rammaáætlun sem hefur lengi verið kallað eftir: Hvar stendur sú vinna í ráðuneytinu sem hefur ekki minna verið kallað eftir varðandi það að koma einhverjum skikk á vindorkuna? Hér var lagt fram frumvarp um að bæta vindorku inn í lög um rammaáætlun fyrir ári en það dagaði uppi í nefnd og er ekki á þingmálaskrá yfirstandandi löggjafarþings. Mig langar að grennslast fyrir um það hjá ráðherranum, fyrst við höfum hann hér í sal að ræða orkumál, hvenær einhvers slíks sé að vænta, hvar vindorkan sé í pípunum akkúrat þessa dagana varðandi stöðu hennar gagnvart rammaáætlun.