152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

583. mál
[23:33]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans andsvar. Stutta svarið er náttúrlega að manni finnst þetta hljóma eins og þetta ætti að vera einfalt og ætti ekki að vera mikið mál. En kannski geta komið upp einhver álitaefni. Ég verð nú að viðurkenna að mín fyrsta hugsun, þegar kemur að því hvaða stofnun þekki þetta væntanlega best, er Orkustofnun. En ég held að á bak við spurninguna liggi einhverjar áhyggjur af því að menn ætli að nota þetta sem leið til að fara fram hjá og byrja með einhverja virkjun og fá svo flýtimeðferð þannig að þetta sé orðið eitthvað allt annað mannvirki eða eitthvað allt annað en það var. Þær áhyggjur komu ekki fram við vinnslu þessa máls, að einhver flötur væri á því að eitthvað slíkt væri hægt. Sérstaklega með vatnsaflsvirkjanirnar eru menn alla jafna að tala um tækjabúnað og hvað jarðvarmavirkjanirnar varðar líka. Í umfjölluninni í aðdraganda þessa máls komu þessar áhyggjur alla vega ekki fram. En ég efast ekkert um það, enda er meðferð þingsins til þess, að menn ræði þetta eins og allt annað. En hugmyndin er einfaldlega þessi, eins og hv. þingmaður vísaði hér til, að bæta orkunýtingu, bæta þau mannvirki sem þegar eru til staðar á svæðum sem eru þegar röskuð og það er uppleggið í þessu.