152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

583. mál
[23:35]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég þykist skilja það sem svo að uppleggið í þessu sé einmitt að horfa til þegar raskaðra svæða og það er akkúrat það sem ég fagna í þessu. Ég held nefnilega að við getum gert betur þar víða. Ég tala nú ekki um ef við getum horft til stækkana og betri nýtingar á þeim virkjunum sem fyrir eru. Þá getum við líka sparað okkur það að ráðast í að brjóta nýtt land sem er mikil ásókn í og verður alltaf eilíf eftirspurn eftir. En ég geri mér alveg grein fyrir því að sumar þessara stækkana, sem t.d. hafa verið metnar og ráðherrann rakti mjög ágætlega í sínu máli, eru ekki endilega til þess fallnar að mæta öllum þeim hugmyndum sem fram eru komnar. En þetta er, held ég, góð vegferð. En þá velti ég því upp, þótt það sé rétt sem hæstv. ráðherra segir, að ég þóttist greina það hér í samráðskaflanum um þetta að einhverjir aðilar hefðu hreyft við áhyggjum og ég skil hvaðan þær koma: Finnst ráðherranum koma til greina, í meðförum þingsins, að það sé skoðað sérstaklega hvaða aðrar stofnanir, og mér dettur t.d. í hug Náttúrufræðistofnun og/eða Umhverfisstofnun, fengju skilgreint hlutverk annaðhvort í stað Orkustofnunar eða með Orkustofnun? Ég skil rökin sem koma fram í greinargerðinni um að fýsilegast sé að það sé Orkustofnun. En finnst ráðherranum eðlilegt að horft sé til þess að slá mögulega á einhverjar áhyggjur í þessa veru með því að skilgreina eða tilgreina sérstaklega þær stofnanir sem gætu komið til greina? Í stað þess að horft sé til þess sem kemur fram í lögskýringu með 1. gr. frumvarpsins, þar sem segir að við slíkt mat sé eðlilegt að stofnunin leiti til þeirra stofnana eða aðila sem hún telur nauðsynlegt að fá álit frá um viðkomandi stækkun, þá væri bara hreinlega stafað út hvaða stofnanir það ættu að vera.