152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

583. mál
[23:37]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Þetta er ekki bara tilfinning ráðherrans heldur er Orkustofnun sú stjórnsýslustofnun sem hefur hlutverk samkvæmt lögunum og hún metur hvort virkjunarkostir séu nægilega skilgreindir til að fara til mats verkefnisstjórnar og því er eðlilegt að hún meti hvort stækkanir eigi heima undir áætluninni eða ekki. Hún veitir nýtt virkjunarleyfi fyrir stækkanir virkjana og hefur vel skilgreint hlutverk samkvæmt raforkulögum. Auðvitað fara menn yfir þessa hluti í nefndinni, hvort Orkustofnun tali við einhverja aðila eða hvernig sem það er gert. En ég á ekki von á öðru en að það gerist hvort heldur sem er, án þess að ég hafi unnið hjá slíkri stofnun, að menn kalli eftir upplýsingum og öðru slíku. En hins vegar af því að hv. þingmaður lýsti því ágætlega, þá er þetta í rauninni — ég veit ekki hvernig það er á íslensku en ég reyni að halda mig við íslensku í þessum stól — ávöxtur sem liggur lágt. Ég veit ekki hvort það sé góð þýðing. Það er alveg sama hvaða lönd við berum okkur saman við; þó að menn vilji ekki veita afslátt af þeim kröfum sem við gerum þá erum við samt að reyna að einfalda hlutina þannig að hlutirnir gerist. Það er líka ákveðin hætta ef okkur tekst ekki að halda uppi þeim kröfum sem við viljum í þeirri vegferð og við lendum í einhverju því ástandi að það verður bara krafa um að ryðja öllu frá til þess að klára vegna þess (Forseti hringir.) að það vantar orku. Það er eitthvert jafnvægi þar á milli en auðvitað skoða menn alla hluti í meðförum nefndarinnar.