152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[16:23]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Krafan um að skipuð verði rannsóknarnefnd Alþingis er mjög málefnaleg krafa. Í 1. gr. laga um rannsóknarnefndir segir, með leyfi forseta:

„Forseti Alþingis skipar rannsóknarnefnd á vegum Alþingis ef þingið samþykkir ályktun þar um til þess að rannsaka málsatvik í mikilvægu máli sem varðar almenning.“

Bankasalan á Íslandsbanka er mikilvægt málefni. Þar er verið að selja eign ríkisins fyrir 52,6 milljarða kr. og hún varðar svo sannarlega almenning. Það sýna skoðanakannanir. 83% þjóðarinnar eru óánægð með þessa sölu. Ég var á fundi fjárlaganefndar í morgun og segi bara alveg eins og er. Ég hef aldrei lent í öðru eins. Það virðist vera að Bankasýsla ríkisins hafi ekki lagt niður fyrir sér hvernig (Forseti hringir.) þessi sala ætti að fara fram á nokkurn einasta hátt. Eina skjalið sem við fengum var skjal (Forseti hringir.) frá lögmannsstofunni White & Case í London (Forseti hringir.) og þeir virðast ekki hafa skoðað einn einasta þátt (Forseti hringir.) og vitið þið hvað, ágreiningur við söluráðgjafana á að fara fyrir gerðardóm í London, (Forseti hringir.) ekki íslenska dómstóla.