152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:29]
Horfa

Frsm. (Jódís Skúladóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta velferðarnefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda (móttaka einstaklinga með vernd, innflytjendaráð). Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um málefni innflytjenda, nr. 116/2012, sem miða m.a. að því að fela Fjölmenningarsetri víðtækara hlutverk vegna samræmdrar móttöku flóttafólks með því að fela stofnuninni að veita sveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf í tengslum við móttöku flóttafólks með ýmsum hætti.

Frumvarpinu er ætlað að jafna þjónustu við flóttafólk, hvort sem það kemur hingað til lands á eigin vegum, í boði stjórnvalda eða í gegnum fjölskyldusameiningu. Frumvarpið var lagt fram á 150. og 151. löggjafarþingi og er það að meginstefnu til óbreytt frá fyrri þingum með þeim undantekningum að gerðar hafa verið breytingar til samræmis við nefndarálit og breytingartillögu meiri hluta velferðarnefndar Alþingis á 151. löggjafarþingi, auk annarra minni háttar breytinga.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi. Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hlutinn árétta nokkur atriði sérstaklega. Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir gagnvart frumvarpinu og styðja markmið og framgang þess. Á fyrri þingum gerði Persónuvernd athugasemdir við framlögð frumvörp, m.a. á grundvelli þess að hlutverk Fjölmenningarseturs væri óskýrt og að ekki hefði verið framkvæmt mat á áhrifum á persónuvernd sem hluta af almennu áhrifamati í tengslum við samþykkt frumvarpsins. Í umsögn Persónuverndar við núverandi frumvarp kemur fram að stofnunin líti svo á að komið hafi verið til móts við athugasemdir stofnunarinnar með fullnægjandi hætti og gerir hún ekki athugasemdir við frumvarpið.

Nefndinni bárust athugasemdir frá Landssamtökunum Þroskahjálp um að fatlað fólk sem kemur til landsins sem flóttafólk sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu hvað varðar söfnun og vinnslu persónuupplýsinga. Samtökin vekja athygli á mikilvægi þess að tryggja upplýst samþykki áður en vinnsla eða miðlun slíkra upplýsinga um fatlað flóttafólk á sér stað. Þá benda þau á að þessi hópur sé oft sérlega berskjaldaður vegna takmarkaðrar tungumálakunnáttu og stöðu sinnar sem flóttafólk í nýjum aðstæðum en ekki síður vegna fötlunar og/eða einhvers konar skerðinga sem verður að taka fullt tillit til.

Meiri hlutinn tekur undir athugasemdir Þroskahjálpar og ítrekar mikilvægi samráðs við aðila sem hafa sérþekkingu á málefnum fatlaðs fólks, aðstæðum þess, þörfum og réttindum. Þá tekur meiri hlutinn undir mikilvægi þess að útfært verði verklag sem tekur mið af og tryggir réttindi fatlaðra innflytjenda sem oft þurfa annars konar stuðning en flóttafólk almennt.

Meiri hluti velferðarnefndar leggur til breytingar á skilgreiningu einstaklinga með vernd. Í umsögn Útlendingastofnunar kemur fram að það kunni að vera skýrara að tilgreina betur í texta frumvarpsins til hvaða hópa því er ætlað að taka. Í minnisblaði félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins er bent á að við vinnslu málsins hafi verið lögð áhersla á að skýrt sé til hvaða hópa samræmd móttaka nær og tekur ráðuneytið því undir ábendingar Útlendingastofnunar.

Meiri hlutinn er sammála ábendingum Útlendingastofnunar og leggur því til að skýrt verði í b-lið a-liðar 2. gr. frumvarpsins að þar sé átt við einstaklinga sem hafa fengið alþjóðlega vernd vegna fjölskyldutengsla við flóttamann eða ríkisfangslausan einstakling skv. 45. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016. Einnig leggur meiri hlutinn til að skýrt verði í e-lið a-liðar 2. gr. frumvarpsins að þar sé átt við ríkisfangslausa einstaklinga skv. 39. gr. laga um útlendinga.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti velferðarnefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir nefndarálitið rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður nefndarinnar, Ásmundur Friðriksson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og Óli Björn Kárason.

Frú forseti. Hér er ég að mæla fyrir nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar í mikilvægu máli til að tryggja samfellda og jafna þjónustu við einstaklinga með vernd óháð því hvort fólk kemur hingað á eigin vegum eða er boðið af íslenska ríkinu. Tilgangurinn er alltaf að bæta þjónustuna og tryggja hana á sem bestan hátt. Þannig er Fjölmenningarsetri gefin lagastoð til að veita faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf með það að markmiði að einstaklingar sem hingað koma geti sem fyrst fótað sig í samfélaginu, komist í nám eða á vinnumarkað og hafi aðgang að þjónustu eins og heilbrigðisþjónustu og samgöngum. Móttökusveitarfélög og einstaklingar með vernd eiga því allt undir því að Fjölmenningarsetri séu tryggð með lögum þau verkfæri sem þarf til að tryggja að ferlið sé faglegt og skilvirkt. Til þess að ferlið geti verið sem best eru stofnuninni veittar heimildir og þær tryggðar í lögum til vinnslu persónuupplýsinga. Meginreglur laga um persónuvernd sem fram koma í 8. gr. persónuverndarlaga eiga hér við en mig langar að ítreka sérstaklega mikilvægi þess að fólk með fötlun er í viðkvæmri stöðu og er alþekkt að gengið sé lengra í söfnun og vinnslu persónuupplýsinga um fatlað fólk en ófatlað að ósekju.

Að lokum vil ég segja að ég er sérstaklega þakklát fyrir að vera í framsögu á þessu máli. Við móttöku á flóttafólki frá Úkraínu hefur hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra komið á fót samræmdri móttökustöð fyrir alla umsækjendur um vernd þar sem lögregla, Útlendingastofnun, heilsugæslan, Fjölmenningarsetur og Vinnumálastofnun eru öll á einum stað. Þannig á að vinna og þess vegna leggur meiri hluti hv. velferðarnefndar hér fram þetta nefndarálit.