152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. (Jódís Skúladóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ef ég næ að taka þetta saman þá ætla ég að fá að byrja á kostnaðinum. Þetta er bara mat sem hefur farið fram og niðurstaðan varð þessi. Það gæti svo komið í ljós hvort það var of- eða vanreiknað. Stofnunin er auðvitað til. Þar er þekking, þar er mannauður en það á að stækka hana. Þetta varð niðurstaðan og svo verður það bara að koma í ljós.

Hv. þingmaður spurði um söfnun persónuupplýsinga. Auðvitað þurfum við alltaf að fara varlega og til þess innleiddum við ný persónuverndarlög fyrir örfáum árum sem hafa svolítið breytt samfélagi okkar. Ekki það, áður en þau lög voru innleidd bar okkur að fara mjög varlega og passa upp á persónuupplýsingar en það sem gerðist með þeirri lagasetningu var að þar kom sektarákvæði inn. Ég ítreka bara að í þessu er verið að veita stofnun heimild til söfnunar og vinnslu persónuupplýsinga sem er nauðsynleg. Stofnuninni er í rauninni falið að para saman einstaklinga með vernd og móttökusveitarfélög. Til þess að sú pörun verði sem heppilegust og einstaklingurinn og sveitarfélagið séu sem best til þess fallin að ná saman þannig að vel gangi þarf ýmsar upplýsingar um stöðu, aldur, heilsufar og annað. Það er samt mikilvægt að vísað er til allra sömu meginreglna og koma fram í lögum um persónuvernd. Þannig að ég held að við séum ekki að fara á einhverja hættulega braut. Ég held að réttur sé tryggður. Ég ítreka bara varðandi sérstaklega viðkvæma hópa, svo sem fatlaða, hinsegin fólk eða aðra, að þar sé ekki gengið lengra heldur en er í lagi.