152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:47]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Jódísi Skúladóttur fyrir svarið. Hv. þingmaður endaði svarið á orðinu mannúð og það er nákvæmlega það sem ég vonast til þess að þingið allt, þegar það horfir á það frumvarp sem er hér á dagskrá seinna í dag, hvenær sem það verður, horfi til því að það er mikilvægt að við séum ekki að henda fólki á götuna, sér í lagi eftir að við erum búin að taka á móti því eins vel og verið er að leggja til hér.

Nú getum við reiknað með því að hingað komi — hann er þegar orðinn tvöfaldur — þrefaldur, fjórfaldur, fimmfaldur, jafnvel tífaldur sá fjöldi sem við höfum verið vön að taka á móti. Það mun kosta peninga. Ég hef saknað þess svolítið að ekki sé þegar búið að óska eftir auknu fjármagni frá Alþingi til þess. Á sama tíma hefur líka komið fram, í svari ráðherra til hv. þm. Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, við fyrirspurn um kostnað við flutning umsækjenda um alþjóðlega vernd úr landi, að þar erum við að eyða vel á 300 milljónum í að flytja fólk úr landi. Mig langaði að heyra í hv. þingmanni hvernig henni fyndist að við gætum fjármagnað þennan aukna fjölda og líka hvort við gætum verið að nýta eitthvað af þeim peningum sem við í dag erum að nýta í að flytja fólk úr landi sem kannski gæti orðið góðir þegnar hér heima.