152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. (Jódís Skúladóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Enn erum við hér að fjalla um ákveðið mál en spurning hv. þingmanns beinist kannski í aðrar áttir. Ég get svarað því til að það fjármagn sem þarf í þessu máli — þetta er fullfjármagnað innan ramma málasviðs 29, svo að nánar sé farið ofan í það. Hvað varðar fjármögnun í hinum breytta heimi þar sem við stöndum frammi fyrir stórkostlega auknum fólksflótta af ýmsum ástæðum er stríðið í Úkraínu, sem brestur á öllum að óvörum og bætir gríðarlega í, eitt en að sama skapi halda áfram hamfarir um allan heim í formi stríðs, náttúruhamfara, loftslagsbreytinga og annars. Við horfum því fram á gríðarlega fjölgun og þunga bylgju af flóttafólki og við því verðum við að bregðast. Ég trúi því að íslensk stjórnvöld hafi verið að gera sitt allra besta. Ég hef bjargfasta trú á því að okkar hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, eins og hann hefur sýnt á þeim stutta tíma sem hann hefur setið, sé að gera vel í þessum málaflokki. Það er dýrt að senda fólk úr landi. Þetta er umræða sem við munum eiga hér undir öðru máli. Ég vildi óska þess, alveg eins og hv. þingmaður, að við gætum hjálpað og tekið á móti öllum. En við getum það ekki og við verðum að finna sameiginlega leið að einhvers konar regluverki sem skilgreinir hvernig við getum gert sem best fyrir sem flest. En við verðum líka að horfast í augu við að einhverjir einstaklingar, og mjög margir, munu ekki geta sest hér að.