152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:12]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka til máls undir þessum mikilvæga dagskrárlið. Ég þarf svo sem miklu meira en tvær mínútur plús eina til að svara öllu sem ég tel að beri að svara í ræðu hv. þingmanns. Ég mun halda andsvörum áfram í ræðu minni á eftir og hvet hann til að vera hér í salnum og eiga við mig frekara samtal síðar í kvöld.

Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um á þessum tímapunkti varðar það sem hv. þingmaður nefndi í tengslum við að í stað þess að leita á náðir glæpasamtaka og eyða í það fúlgum ætti fólk að velja þær löglegu og formlegu — svo ég noti bara beina tilvitnun í hv. þingmann: fara í gegnum hið örugga formlega kerfi. Nú er það svo að samkvæmt þeirri löggjöf sem gildir í Evrópu, alþjóðalöggjöf, evrópskri löggjöf og löggjöf allra Evrópuríkja, á flóttamaður sem kemur að landi rétt á vernd. Það þýðir að ef þú kemur til Evrópu og ert flóttamaður áttu rétt á vernd. En þú mátt ekki koma hingað. Það er engin lögleg leið fyrir flóttamenn að koma til Evrópu og sækja um hæli — engin. Það örugga formlega kerfi sem hv. þingmaður er að tala um getur því einungis verið eitt og það er annað kerfi sem eru flóttamannabúðir á vegum Sameinuðu þjóðanna þar sem ákveðið fólk er tínt út og sent eins og bögglar eitthvert í heiminum. Það stjórnar ekki hvert það fer. Ef það segir nei þarf það að bíða jafnvel árum saman eftir næsta möguleika.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvaða örugga formlega kerfi hann er að tala um, (Forseti hringir.) hverja hann telur vera bestu leiðina til að veita flóttafólki vernd í Evrópu, þeim sem mesta þörf hafa á því.