152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:19]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp til breytinga á lögum um málefni innflytjenda sem snýst fyrst og fremst um samskipti Fjölmenningarseturs og sveitarfélaga um móttöku þeirra einstaklinga sem þegar hafa fengið vernd á Íslandi. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flutti hér þriðja árið í röð ræðu sem snerist fyrst og fremst um málefni útlendinga sem þessi lög í rauninni fjalla ekki um, þess fólks sem hingað leitar. Mig langar samt sem áður að spyrja hv. þingmann út í frumvarpið sem við ræðum hér og beina þeirri spurningu til hans hvaða þýðingu þetta frumvarp hafi fyrir samskipti sveitarfélaga og Fjölmenningarsetur og í rauninni ráðgjöf Fjölmenningarseturs til sveitarfélaga við móttöku þeirra 850 Úkraínumanna sem hingað eru komnir nú þegar og þeim gæti og mun því miður að öllum líkindum fjölga á næstu dögum. Hvaða þýðingu hefur þetta frumvarp sem hér er til umfjöllunar varðandi þau samskipti?