152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:24]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef sannarlega ekkert á móti því að bæta þjónustu Fjölmenningarseturs við sveitarfélög. Þetta er nú orðinn mikill ósiður, sérstaklega hjá þessari ríkisstjórn á þessu síðasta kjörtímabili, að henda inn í frumvörp alls konar hlutum. Svo þegar menn gagnrýna meginatriðið, megintilganginn, megináhrifin, er bent á: En bíddu, ertu á móti þessu sem er líka í frumvarpinu? Þetta er algerlega fráleitur málflutningur, herra forseti.

Þetta mál snýst um að leggja grunn að grundvallarstefnubreytingu þar sem Ísland myndi skera sig úr, meðal Norðurlandanna a.m.k. Það að fara að vísa í hvort maður sé mótfallinn því að Fjölmenningarsetur hafi betri aðstöðu til að aðstoða sveitarfélög — auðvitað er ég ekki mótfallinn því en það er hægt að gera það með allt öðrum hætti en að ráðast um leið í grundvallarstefnubreytingu sem glæpagengi munu nota í auglýsingum til að gera Ísland að áfangastað á sama hátt og dönsk stjórnvöld eru sérstaklega að reyna að koma í veg fyrir núna.