152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það var ágætt að fá þetta andsvar vegna þess að með því birtast þau ímyndarstjórnmál sem ég var að tala um hér. Hér kemur hv. þingmaður og talar um mannúð og hættuna á því að ef menn nota ekki réttu frasana heldur ræða raunverulegt innihald málsins sem verið er að taka fyrir hér þá gætu þeir verið að ala á andúð. Það er ekki hægt, herra forseti, að nálgast mál með þessum hætti. Við verðum að geta rætt raunverulegt innihald. Ég er algerlega sannfærður um að það sé rétt hjá hv. þingmanni að langflestir Íslendingar vilji leggja mikið af mörkum við að aðstoða fólk sem stendur illa af ýmsum ástæðum. En rétt eins og við þurfum stöðugt að taka ákvarðanir í innanlandsmálum um hvernig fjármagni er varið til að gera gagn þá þurfum við líka í þessum málaflokki, ef okkur er alvara með að gera sem mest gagn og aðstoða sem flesta sem þurfa mest á hjálpinni að halda, að ræða innihaldið, leyfa okkur að tala um það með hvaða hætti við gerum mest gagn og leyfa okkur líka að gagnrýna, leyfa okkur að benda á að hugsanlega sé verið að gera hluti sem á heildina litið gera okkur erfiðara fyrir að hjálpa eins og langflesta Íslendinga langar að gera að eins miklu leyti eins og kostur er. Það er ekki hægt að nálgast þennan risastóra málaflokk, jafnvel þennan stærsta málaflokk samtímans, með því bara að segja: Eru ekki allir hlynntir mannúð? Ætlar þú að gagnrýna mál sem snýst um mannúð? Það er ekki mannúð nema þú raunverulega leitir leiða til þess að ná sem mestri mannúð, hjálpa sem flestum þeirra sem þurfa mest á hjálp að halda.