152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:30]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er þó ekki alveg viss um að ég hafi fengið svarið við spurningunni minni. Gott og vel, mér fannst ég þó greina þann sameiginlega skilning okkar að hér sé samfélagið að breytast ansi hratt, m.a. í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru í heiminum; stríð, loftslagsbreytingar, náttúruhamfarir, svo að ég telji þetta upp aftur. Það er nýr veruleiki og nýr veruleiki fyrir ansi marga einstaklinga sem við, og ég sagði það hér áðan, deilum ekki kjörum með, skiljum e.t.v. ekki nægilega vel. Hv. þingmaður bendir á að með þessari lagasetningu sé um grundvallarstefnubreytingu að ræða og að við skerum okkur úr Norðurlöndunum. Er e.t.v. kominn tími til þess, svo að ég spyrji hv. þingmann, í ljósi hraðra breytinga samtímans, að við hreinlega vöndum okkur við að skera okkur úr og bregðast hraðar við aðstæðum?