152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[20:47]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jódísi Skúladóttur fyrir andsvarið. Fyrst er það að segja að ég er sammála því að það er erfiðara að leggja mat á þennan málaflokk en marga aðra. En stjórnvöldum tekst nú býsna illa upp oft. Sá málaflokkur sem ætti mögulega að vera auðveldast að leggja mat á er þróun fjölda aldraðra í samfélaginu. Það hefur nú gengið eins og það hefur gengið hjá íslenskum stjórnvöldum um langa hríð. Menn þurfa hugsanlega æfa sig aðeins betur á reiknistokknum, þeir sem um hann halda í þessum efnum.

Ég held að hv. þingmaður sé aðeins að misskilja gagnrýni mína. Gagnrýni mín snýr ekki að 23,7 milljóna tölunni sem var framlögð í fyrra eða 40,8 milljóna tölunni núna í frumvarpinu. Ég get best trúað að það sé bara nokkurn veginn alveg upp á krónu rétt og geri engar athugasemdir við það. Gagnrýni mín felst í því að ekki sé lagt mat á möguleg afleidd áhrif, á ensku með leyfi forseta, „pull factor“, sem myndi þá þýðast einhvern veginn: Aukið aðdráttarafl til umsókna hér á landi samanborið við önnur svæði. Það er gagnrýnin á að það mat eigi sér ekki stað í tengslum við málið sem málflutningur minn lýtur að. Hvort það eru 23,7 millj. kr. eða 40,8 í stóru myndinni skiptir bara næstum því engu máli. Þetta er ekki stóra talan. Þessi tala er ekki nema brotabrot af því umfangi sem kerfið kallar á í kostnað eins og staðan er í dag. Ég hef áhyggjur af því að það verði aukin aðsókn vegna þessara breyttu reglna verði niðurstaðan að keyra málið í gegn með þessum hætti. Bara svo að það sé alveg á hreinu felst gagnrýni mín ekki í þessari tölu sem sett er fram í frumvarpinu heldur felst gagnrýnin í því að sú tala er algjört aukaatriði í heildarmyndinni.