152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[21:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir að hingað komi ekki holskefla, við séum svo langt í burtu lengst í norður í hafi. En í ræðu sinni áðan útskýrði hv. þingmaður ágætlega á Íslandi væri gott að búa, útskýrði aðdráttaraflið sem landið hefði fyrir fólk víða um heim. Nú liggur það fyrir að með breyttri tækni og ferðamöguleikum komast menn miklu víðar en áður og þar með talið til Íslands. Fjöldi hælisumsókna hér hefur margfaldast. Það er eitt af því sem ég kom inn á í ræðu minni áðan sem athugasemd við ræðu hv. þingmanns. Ísland var hlutfallslega, af því að hv. þingmaður notaði hlutfallslegu umræðuna sem afsökun fyrir því að við værum svona ofarlega miðað við önnur Norðurlönd, með minnsta fjölda hælisumsókna á Norðurlöndunum fyrir fáeinum árum. Ísland er eyja, menn komust ekki beint til Íslands, þurftu að taka meðvitaða ákvörðun um það og fara í gegnum önnur lönd en sífellt fleiri hafa gert það vegna ferðamöguleikanna og vegna þeirra skilaboða sem íslensk stjórnvöld hafa sent frá sér, og auðvitað, eins og hv. þingmaður segir réttilega, vegna þess að Ísland er mjög gott land og hefur mikið aðdráttarafl, ég myndi segja betra land en flest lönd í heimi. En það kallar þá á svar við spurningunni: Hvar á að draga mörkin? Því að ef Ísland til að mynda eitt landa opnaði alveg og segði að allir þeir sem búa við bág kjör í heiminum eða sæta einhvers konar fordómum, sem því miður eru víða ráðandi, gætu komið hingað þá myndi það ekki stoppa. Það myndi ekki stoppa fyrr en að við réðum ekki við ástandið. (Forseti hringir.) Hvernig ætlar hv. þingmaður að hafa stjórn á þessu ef hann telur yfir höfuð að það eigi að reyna að hafa einhverja stjórn á þessu?