152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[21:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að verja miklum tíma í þessa tölfræðiumræðu varðandi stríð. Hv. þingmaður viðurkennir þó að mannfall í stríði hafi farið minnkandi en heldur því fram á móti að fjöldi átaka hafi aukist. Það fer væntanlega eftir því hvernig mönnum gengur að telja það. Ég hugsa að á fyrri hluta 20. aldar og ég tala nú ekki um á 19. öld hafi verið ýmis átök í vanþróaðri ríkjum sem menn töldu ekki einu sinni með. Látum það liggja á milli hluta. Það sem ég ætlaði að gera athugasemd við var að hv. þingmaður nefndi það að þrátt fyrir að mannfall í stríði væri mun minna en oft hefði verið í gegnum tíðina þá væru miklu fleiri sem þyrftu hjálp af þeim sökum. Staðreyndin er sú, frú forseti, að það hefur alla tíð frá upphafi mannkyns verið mikill fjöldi fólks sem hefur þurft hjálp vegna átaka. Munurinn felst í því, sem ég rakti hér stuttlega í ræðu minni, að samskipti og möguleikar á að ferðast hafa aldrei verið neitt í líkingu við það sem nú er. Til dæmis um þetta má nefna að þegar Indland og Pakistan skildust að og úr varð stríð í þessum gríðarlega fjölmennu löndum, það féllu milljónir manna, þá áttu íbúar þessara landa rétt á að flytjast til Bretlands. En það komu sárafáir til Bretlands vegna þess að á þessum tíma var fólk einfaldlega of fátækt til að ferðast, hafði ekki upplýsingar um það o.s.frv. Það er ekki hægt að líta fram hjá þessari grundvallarbreytingu á upplýsingagjöf og ferðamöguleikum (Forseti hringir.) þegar menn reyna að nálgast skynsamlega stefnu í málefnum hælisleitenda.