152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[22:27]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég get verið hjartanlega sammála hv. þingmanni um að Ísland sé dásamlegt land. Hér er gríðarlega gott að búa. Mér líður vel hér og þótt forvitni mín hafi rekið mig út fyrir landsteinana ítrekað og muni eflaust gera það aftur eins og svo marga þá er Ísland gott land og hér er gott að búa. En ástæðan fyrir því að mér finnst gott að búa hérna er ekki síst sú að hér á ég heima, þetta þekki ég, ég þekki menninguna, ég skil fólkið, skil það sem er í gangi. Veðrið finnst mér alls ekki skemmtilegt. Mér finnst það mjög erfitt og mjög leiðinlegt, ég ætla bara að játa það að ég á mjög erfitt með veðráttuna á Íslandi þrátt fyrir að hafa fengið 40 ár til að reyna að venjast henni. Þegar fólk kemur annars staðar frá þá upplifir það Ísland ekki endilega með sama hætti. Það er ekki þannig að öllu fólki sem flýr sitt heimaríki og kemur hingað finnist Ísland frábært land. Mörgum finnst gríðarlega erfitt að koma hingað og gríðarlega erfitt að setjast hér að en þau eru tilneydd. Veðrið er sannarlega stór faktor og það sem við áttum okkur ekki á sem erum vön þessari veðráttu, vön inniverunni, er að í ríkjum t.d. þar sem er stofuhiti inni og úti allan ársins hring, þá er fólk inni og úti allan ársins hring. Jafnvel í staðinn fyrir vegg er bara opið og þú getur opnað heilu húsveggina út á götu og þar er mannlíf og annað og það getur verið gríðarlega mikil einangrun fólgin í því að flytja til lands þar sem við dveljum langdvölum innan dyra. Það er enn erfiðara þegar þú þekkir engan og ert bara einn inni heima hjá þér. Þannig að mig langar til að leiðrétta þann misskilning hv. þingmanns að allur heimurinn vilji endilega koma til Íslands og setjast hér að af því að það er svo frábært. Það er einfaldlega ekki svo að allir séu sammála því. Það er kannski gaman að koma hingað (Forseti hringir.) og skoða Gullfoss og Geysi en að búa hér er erfitt. Íslenskt samfélag er tiltölulega lokað félagslega. (Forseti hringir.) Veðrið er erfitt og tungumálið er erfitt, þannig að ég vildi bara byrja á að leiðrétta þann misskilning.