152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[23:00]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil hér í þessari þriðju ræðu minni um málið klára þetta atriði sem snýr að því hversu augljóst það er, hvað varðar þá áætlun stjórnvalda að útvíkka þann hóp jafn mikið og raunin er sem nýtur þeirra réttinda sem kvótaflóttamenn njóta í dag, að það er hægt að ná þeim markmiðum fram án þess að stækka þann hóp jafn mikið og hér er lagt til. Ég er þegar búinn að þylja upp nokkur atriði úr meginefni frumvarpsins þar sem blasir við að það er hægt að ná markmiðunum án útvíkkunar hópsins. Það er bara engin raunveruleg tenging þar á milli.

Varðandi meginefni frumvarpsins þá ætla ég núna að koma inn á atriði sem snúa að persónuverndarsjónarmiðum. Hér er í greinargerðinni tekið sérstaklega á því, með leyfi forseta:

„Eins og á við um alla vinnslu persónuupplýsinga er beiting heimildarinnar háð því að vinnsla sé í samræmi við þær meginreglur sem koma fram í 8. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, þ.m.t. að upplýsingarnar séu ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar.“

Í þessu samhengi langar mig til að rifja upp sjónarmið Persónuverndar þegar málið var lagt fram hér á fyrri stigum, því að staðan er sú, eins og segir í byrjun greinargerðar, að frumvarpið er að mestu leyti óbreytt frá fyrri þingum en það hefur áður verið lagt fram á 150. og 151. þingi, sem sagt í fyrra og hittiðfyrra. Í áliti Persónuverndar frá því 18. febrúar 2020, fyrir rúmum tveimur árum síðan, segir í 4. lið umsagnar um mat á áhrifum á persónuvernd, með leyfi forseta:

„Ekki verður séð að mat á áhrifum frumvarpsins á persónuvernd hafi verið hluti af almennu áhrifamati í tengslum við samþykkt þess, sbr. hins vegar 10. mgr. 35. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.

Persónuvernd telur að nauðsynlegt sé að framkvæma slíkt mat af hálfu löggjafans, meðal annars með hliðsjón af þeim athugasemdum sem stofnunin hefur gert við frumvarpið. Forsendur matsins og niðurstöður þess þyrftu að koma fram í lögskýringargögnum.“

Þetta er fyrir rúmum tveimur árum. Síðan er búið að leggja málið fram, ekki einu sinni heldur tvisvar án þess að þetta mat fari fram. Það er nú þannig að í þessum heimi sem við lifum í í dag, þar sem persónuverndarsjónarmið eru æ mikilvægari margra hluta vegna, þá er ekki annað hægt en að gagnrýna mjög ráðuneytið eða ráðherra sem með málaflokkinn fer. Nú er annar ráðherra og annar einstaklingur, hæstv. ráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson, sem fer með málaflokkinn, heitir félags- og vinnumarkaðsráðherra, en áður var það hæstv. ráðherra Ásmundur Einar Daðason, sem nú heitir mennta- og barnamálaráðherra en hét þá félags- og barnamálaráðherra. Það er erfitt að halda þræði í þessum efnum. En þessir tveir ráðherrar hafa haldið á málinu í samfellu í rúm tvö ár frá því að þessi gagnrýni Persónuverndar kom fram í umsögn 18. febrúar 2020 án þess að gera neitt með þessi sjónarmið. Það er alveg óskiljanlegt vegna þess hversu miklar heimildir til vinnslu persónuupplýsinga er um að ræða, eins og segir hér, með leyfi forseta:

„… að geta unnið með viðkvæmar persónuupplýsingar og persónuupplýsingar sem talist geta viðkvæms eðlis, m.a. upplýsingar um ástæður þess að einstaklingnum var veitt vernd, sálræn áföll, þjóðernisuppruna og heilsufar.“

Þetta þykir manni benda til þess að menn vilji hrófla við sem minnstu til að forðast dýpri umræðu um það sem hangir á spýtunni, sem er auðvitað á endanum hvað mig varðar áhyggjur af þeim afleiddu áhrifin sem frumvarpið hefur.

Ég á eftir að fara í næstu atriði málsins, virðulegur forseti, og tíminn er knappur orðinn núna (Forseti hringir.) þannig að ég vil biðja hæstv. forseta um að skrá mig í aðra ræðu.