152. löggjafarþing — 70. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[00:07]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Nú er ég búinn að lesa það er fjallar um 2. gr. frumvarpsins staf fyrir staf, í þeirri greinargerð sem frumvarpinu fylgir. Þar get ég ekki fundið neina umfjöllun um það sem hæstv. ráðherra hélt fram í framsöguræðu sinni, að allir þeir hópar sem tilgreindir eru í fimm stafliðum í 2. mgr. njóti að frumvarpinu samþykktu sömu réttinda og kvótaflóttamenn. Hér segir í byrjun umfjöllunar um 2. gr. í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Í a-lið er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði vegna samræmdrar móttöku einstaklinga með vernd, sem verður 3. gr. a.“

Það er ekki fleira sem rammar inn þennan skilning ráðherra á þeim megináhrifin sem frumvarpið nær fram. Síðan virðist allur þessi textaflaumur ganga út á það að útskýra með hvaða hætti Fjölmenningarsetri eru tryggð fyllri réttindi til að safna upplýsingum og styðja við flóttafólk á grundvelli þeirra. Við það er engin ástæða til að gera athugasemd. Ég held að það sé raunverulega hið besta mál að gera Fjölmenningarsetri mögulegt að greina betur þá einstaklinga og þær fjölskyldur og þá eftir atvikum hópa sem hingað koma til að auka sem mest líkurnar á því að góð aðlögun að samfélaginu geti átt sér stað. En ég verð eiginlega, hæstv. forseti, að vita hvort framsögumaður nefndarálits, hv. þm. Jódís Skúladóttir er í húsi. Það gæti mögulega orðið gagn að því að fá útskýringar hv. þingmanns á þessu. (Forseti hringir.)

(Forseti (BÁ): Hv. þm. Jódís Skúladóttir er skráð í hús.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir upplýsingarnar. Ef hv. þingmaður heyrir til mín þá væri mikið gagn af því að fá hana til umræðunnar til að reyna að útskýra fyrir þeim sem hér stendur hvar þessum áformum um aukin réttindi tiltekinna hópa er fyrir komið í þessu frumvarpi. Það segir hér í 2. gr., eins og ég sagði áðan, undir liðnum um samræmda móttöku einstaklinga með vernd, með leyfi forseta:

„Fjölmenningarsetur skal veita móttökusveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf vegna samræmdrar móttöku einstaklinga með vernd.“

Síðan eru taldir upp hverjir einstaklingar með vernd eru í skilningi þessa ákvæðis, sem eru þessir fimm hópar sem ég taldi upp áðan. Ég fæ ekki séð með hvaða hætti þessi texti, eða greinargerðin sem fjallar um 2. gr. eða nokkur annar hluti greinargerðarinnar, rammar inn þann skilning hæstv. ráðherra sem kom fram hér við framsögu málsins um að þetta jafnaði réttindastöðu allra þessara hópa. Þetta lítur dálítið þannig út að það sé verið að reyna að lauma þessu í gegn. Ég verð að viðurkenna að ég hef nokkra samúð með þeim þingmönnum sem hafa setið í nefndinni sem um málið fjallaði, að hafa ekki gert neina tilraun til að leggja mat á afleiðingar, bæði bein áhrif og síðan afleidd áhrif, af þessari breytingu. Ef skilningur hæstv. ráðherra er sá sami og fyrri ráðherra hafði, hæstv. ráðherra Ásmundur Einar Daðason, um að þetta samræmdi réttindi þeirra hópa sem hér eru taldir upp í a–e-lið, og ef sá skilningur er hafður til hliðsjónar, þá bara óska ég eftir skýringu.

Nú sé ég að hv. þm. Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri grænna, er mættur hér í salinn. Ef hv. þingmaður, verandi þingflokksformaður í þeim flokki sem fer fyrir ráðuneytinu, þekkir þetta og gæti útskýrt fyrir þeim sem hér stendur þá myndi það mögulega fækka þeim vangaveltum sem uppi eru hjá mér vegna þessa. En ég sé að tíminn er að hlaupa frá mér og svona upp á samhengi hlutanna þá bið ég forseta að setja mig aftur á mælendaskrá í stað þess að byrja á nýjum punkti hér á síðustu sekúndunum.