152. löggjafarþing — 70. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[00:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Nú er ég í nokkurn vanda settur því að hv. þm. Bergþór Ólason heldur áfram að þylja upp mjög áhugaverðar staðreyndir sem mann langar til að bregðast við. En ég ætla að reyna að halda þræði með þann kafla ræðu minnar sem ég var byrjaður á en kannski gefst tækifæri til þess síðar í nótt að bregðast við því sem hv. þm. Bergþór Ólason var að fara yfir hér áðan.

Ég var byrjaður að ræða það að heimurinn fari batnandi sem er staðreynd á langflestan hátt. Það er sama hvort litið er til mannfalls í stríði eða aukinnar velmegunar, aukins heilbrigðis, á langflestan hátt hefur heimurinn jafnt og þétt farið batnandi undanfarna áratugi. Þá spyr maður sig: Hvers vegna er þá fjöldi flóttamanna jafn mikill og hann er? Hvers vegna hefur þeim fjölgað svona mikið? Það er vegna þess að þessar grundvallarbreytingar á heiminum, m.a. aukin velmegun, hafa orðið til þess að fleira fólk hefur tækifæri til að leita betri lífsgæða, til að ferðast, fá upplýsingar um lífið og stöðuna í öðrum löndum. Það er óhjákvæmilegt að taka tillit til þessarar grundvallarbreytingar ef menn ætla að hanna stefnu í málefnum hælisleitenda sem raunverulega virkar og er til þess fallin að hjálpa því fólki sem þarf mest á hjálpinni að halda.

Oft heyrir maður nefnt, og ég hef örugglega sagt þetta oft sjálfur á fyrri tíð, herra forseti, að það sé mikilvægt fyrst og fremst að aðstoða fólk við að byggja upp efnahag sinna landa, auka velmegun í öðrum löndum svoleiðis að fólk þurfi ekki að gerast flóttamenn, en raunin er sú að eftir því sem velmegun eykst í löndum sem hafa verið mjög fátæk þá eykst brottflutningur fólks frá þeim löndum. Flóttamönnum frá þeim löndum fjölgar en fækkar ekki með aukinni velmegun, upp að vissu marki auðvitað og stór rannsókn sem gerð var á þessu sýndi að á þeim tíma a.m.k., þetta var fyrir fáeinum árum, lægju þessi mörk einhvers staðar u.þ.b. við lífskjör eða lífsgæði í Albaníu. Reyndar sjáum við og höfum séð á undanförnum árum að þó er enn áfram mjög verulegur straumur frá Albaníu.

Hins vegar er mjög lítill, nánast enginn, straumur flóttamanna frá fátækustu löndunum, frá allra fátækustu löndunum. Ég skal nefna eitt dæmi sem er mjög lýsandi fyrir þetta, herra forseti. Það er ríkið Tsjad. Tsjad er merkilegt í þessu samhengi öllu, varðandi þennan mikla flóttamannastraum, vegna þess að þar er líklega stærsta miðstöð flóttamannastraumsins í allri Afríku þar sem þeir hópar sem skipuleggja þessar ferðir fólksins mætast í þessu ríki, í ákveðinni borg sem ég man ekki í svipinn hvað heitir. Þar er miðstöðin áður en menn fara svo norður í átt að ströndinni í Líbíu eða öðrum löndum. En þrátt fyrir að miðstöð þessara fólksflutninga í Afríku sé í Tsjad fara sárafáir, nánast engir, flóttamenn frá Tsjad. Þeir hafa ekki efni á því. Þeir komast ekki með þessum hópum til að freista gæfunnar. Svoleiðis að með auknum lífsgæðum í þessum þróunarlöndum öllum, þótt við að sjálfsögðu eigum að stefna að því, með öllum tiltækum ráðum, að aðstoða þessi lönd við að bæta kjörin heima fyrir hjá fólki og gera heiminn áfram jafnt og þétt betri, þá mun það ekki draga úr fjölda flóttamanna. Það mun auka hann. Með betri lífskjörum, auknum samskiptum, auknum tækifærum fólks mun fjöldi flóttamanna í heiminum aukast, ekki minnka. Það er eitthvað sem við þurfum að taka tillit til þegar við hönnum kerfi sem virkar til að takast á við vandann og hjálpa þeim sem þurfa mest á hjálpinni að halda.