152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

ábyrgð fjármálaráðherra við bankasölu.

[10:56]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að fagna nærveru hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra hér í þingsal og langar eðli málsins samkvæmt að spyrja hana út í sölu fjármálaráðherra á hlut eign almennings í Íslandsbanka. Hæstv. viðskiptaráðherra er sérfræðingur í efnahagsmálum og á sviði fjármálafyrirtækja. Það er dýrmætt að hafa slíka þekkingu í ríkisstjórn sem og í þriggja manna ráðherranefnd um efnahagsmál og framtíðarskipan fjármálafyrirtækja. Þess vegna er lagt við hlustir þegar hún greinir frá afstöðu sinni á því sviði, hvort sem um er að ræða tillögur um hækkun bankaskatts eða viðvörunarorð þegar kemur að sölumeðferð á hlut almennings í Íslandsbanka.

Virðulegur forseti. Í gær fór fram opinn fundur í hv. fjárlaganefnd þar sem mættir voru forstjóri og stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, sem annaðist framkvæmdahlið sölunnar fyrir hönd fjármálaráðherra. Aðspurður sagði stjórnarformaður vald ráðherrans ótvírætt enda bundið í lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Var á orðum hans að skilja að þeir hefðu eingöngu framkvæmt í samræmi við lög, þ.e. samkvæmt fyrirskipun hæstv. fjármálaráðherra, borið til hans tillögur sínar um val á söluráðgjöfum um framkvæmdina og tilboð þau sem bárust enda valdið hans, og var það ítrekað.

Því vil ég spyrja hæstv. viðskiptaráðherra: Er hún sammála því sem fram kemur í lögunum og kom fram í orðum stjórnarformanns Bankasýslunnar um ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra á ferlinu og völd hans í þessum efnum, að það er hann sem ákveður leiðirnar og aðferðirnar frá upphafi til loka sölumeðferðar?