152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

ábyrgð fjármálaráðherra við bankasölu.

[10:58]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir spurninguna og ég er sammála því. Það stendur skýrt í lögunum hver ber ábyrgð þannig að það er skýrt í mínum huga og eins og ég greindi frá hér fyrr í dag þá tel ég að fjármála- og efnahagsráðherra sé þegar byrjaður að axla ábyrgðina á þessari sölu. En ég vil líka nefna og bæta við að það er þannig að Bankasýsla ríkisins kemur upphaflega með tillöguna inn í ráðherranefnd. Það gerir hún. Hún gerir það eftir að hafa ráðfært sig við sérfræðinga, bæði innlenda og erlenda. Ég vil nefna það í þessu samhengi, virðulegi forseti, að það voru efasemdir um þessa aðferð hjá öllum ráðherrum og það kemur líka fram til að mynda að fyrsti hluti sölunnar var afskaplega vel heppnaður. Þá náðum við þeim markmiðum sem voru eðlileg; dreift eignarhald, opið og gagnsætt ferli og nákvæmlega eins og á að gera hlutina.

Virðulegur forseti. Ég hugsaði þá: Fyrst þetta gekk svona vel síðast — og það var ekkert sjálfgefið, það er vandasamt að selja banka, kerfislega mikilvæga eign, og ég verð að segja að ég var býsna stolt af því hvernig til tókst. Þá þótti mér undarlegt að við skyldum breyta þeirri aðferð vegna þess að hún gekk vel. En ég er sammála hv. þingmanni.