152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

ábyrgð fjármálaráðherra við bankasölu.

[11:00]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Hér skiptir lykilmáli að traust ríki þegar selja á ríkiseign og enn meira þegar verið er að selja ríkisbanka vegna forsögunnar. Það er ekkert sérstaklega traustvekjandi að sá sem mögulega hefur brotið lög fyrirskipi sjálfur rannsókn. Það er Alþingis að gera það, ekki meints brotamanns. En vegna traustsins verðum við, þingmenn og almenningur, að treysta því að ráðherrar, sem sitja við borðið þegar ákvarðanir um sölu og sölumeðferð eru teknar, komi hreint fram og upplýsi þjóðina um minnstu efasemdir sem kunna að vakna. Nú hefur hæstv. viðskiptaráðherra sagst hafa haft efasemdir í aðdraganda sölunnar og að þau hafi öll í ráðherranefndinni haft efasemdir og að sú staða sem birtist okkur eftir að bankasalan var afstaðin hafi ekki komið henni á óvart en mögulega og mögulega ekki heldur ráðherrunum. Í kjölfarið sagði hæstv. forsætisráðherra að hæstv. viðskiptaráðherra hefði ekkert bókað en hún hefði haft efasemdir og þá spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað varð til þess að henni snerist hugur (Forseti hringir.) þarna við borðið? Hvers vegna fylgdi hún ekki eigin sérfræðiþekkingu? (Forseti hringir.) Hvers vegna upplýsti hún ekki þingið þegar málið var til umfjöllunar hér? (Forseti hringir.) Eigum við ekki heimtingu á því að þeir sem fá allar ítarlegar upplýsingar um málið komi hingað og upplýsi um efasemdir sínar? (Forseti hringir.) Hvar liggur ábyrgð þeirra ráðherra sem höndluðu með málið í þessari ráðherranefnd? Að leyna upplýsingum varðar við lög, virðulegur ráðherra.

(Forseti (BÁ): Ræðutími í síðari spurningu í óundirbúnum fyrirspurnum er ein mínúta en ekki ein og hálf.)