152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[11:26]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði hér rétt áðan og ég vil líka beina því til forseta að hann ætti að koma því til hæstv. ráðherra að þeir svari þeim fyrirspurnum sem beint er til þeirra, ekki með skætingi beint til þingmanna heldur svari ósköp einfaldlega þeirri spurningu sem hér var lögð fram. Hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra boðaði það í viðtali fyrir páska að það myndi meira skýrast um afstöðu ráðherra og varnaðarorð sem hann lét síðan lét falla eftir á. Það eina sem skýrðist í þessum fyrirspurnatíma var að það var dregið allhressilega í land. Hæstv. ráðherra hafði nægan tíma þegar hann lauk svari sínu við fyrirspurn áðan til að klára svarið, það var tími eftir, en það var gengið í burtu eftir að fúkyrðum var hreytt í hv. þingmann. Þetta gengur ekki og ég óska eftir því að hæstv. forseti beini því til ráðherra að þeir svari spurningum og þeir komi fram af kurteisi við hv. þingmann. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)