152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

afstaða ráðherra til söluferlis Íslandsbanka.

[11:27]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Þetta var athyglisverður fyrirspurnatími og hann gefur tilefni til þess að málið sé rætt og skoðað enn betur. Hér kom fram frá hæstv. ráðherra að ekki einungis hún heldur allir í ráðherranefndinni hafi haft efasemdir. Það kemur í ljós að hún a.m.k., hæstv. ráðherra, taldi þetta ferli vera áhættusamt án þess að þinginu væri nokkurn tímann gerð grein fyrir því. Og að lokum þá kemur hæstv. ráðherra sér undan því að svara spurningu hv. þingmanns þar sem vitnað var í hana og ráðherrann segir þá ýmislegt eiga eftir að koma í ljós. Hér á eftir eru sérstakar umræður með hæstv. ráðherra og ég hvet þá þingmenn sem taka þátt í þeirri umræðu til að krefja ráðherra svara, hvað ráðherrann hafi átti við.