152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

afstaða ráðherra til söluferlis Íslandsbanka.

[11:28]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það kom hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra ekki á óvart að bankasalan færi fram með þeim hætti sem upplýst er nú, með þessu tjóni sem orðið hefur fyrir íslenskan almenning. Hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að það hafi verið fyrirséð að hlutir sem ætlaðir voru til langtímafjárfesta væru seldir skammtímafjárfestum sem seldu daginn eftir. Hæstv. viðskiptaráðherra segir hér eftir á að umræðan sé góð af því að það skipti máli að byggja upp traust. Hvar voru þessir ráðherrar þegar umræða átti sér stað í þinginu í aðdraganda sölunnar? Hvar liggur ábyrgð ráðherra á að upplýsa þing og þjóð um það sem þeir vita um en láta ekki Alþingi vita? (Forseti hringir.) Almenningur hefur orðið fyrir tjóni og ráðherrarnir bera ábyrgð á því, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. viðskiptaráðherra.