152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

afstaða ráðherra til söluferlis Íslandsbanka.

[11:35]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Maður hlýtur að spyrja sig á þessum tímapunkti um ábyrgð ráðherra. Að koma hingað upp í pontu og lýsa varnaðarorðum sem látin voru falla eftir á. Ég hef ekki haft eina einustu vitneskju um það allan þennan tíma að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi haft áhyggjur af þessari tilboðsleið. Hvernig stendur á því að við vorum ekki upplýst um þessar meintu áhyggjur ráðherra áður en ákvörðunin var tekin? Og ég minnist þess ekki, eftir að hafa setið bæði í efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd, að nefndarmenn ríkisstjórnarinnar hafi haft uppi eitt einasta orð um þessar áhyggjur. Svo koma allir núna eftir að barnið er dottið ofan í og segja: Já, við létum varnaðarorð falla og við höfðum öll áhyggjur. — Bíddu, til hvers voru þið valin?