152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

afstaða ráðherra til söluferlis Íslandsbanka.

[11:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við skulum átta okkur á því að hérna erum við með flokka í ríkisstjórn sem fengu í rauninni ekki lýðræðislegt umboð til valda. Þau þurftu að hópa sig saman til að taka sér meirihlutavald. Enginn þessara flokka fékk hreinan meiri hluta í þingkosningum. Þau þurfa að semja, búa til meirihlutasáttmála um það hvernig þau ætla að fara með völd. Þau taka sér þetta vald. Við skulum átta okkur á því. En valdi á að fylgja ábyrgð. Hérna sjáum við enga ábyrgð, ekki neina. Við heyrum varnaðarorð fram og til baka og allri ábyrgð hent á Bankasýslu eða söluráðgjafa, eitthvert annað en til þess fólks sem tekur sér valdið. Þannig á ekki að fara með völd. Völdum fylgir ábyrgð og þau sem styðja svona valdastjórn, ábyrgðarlausa valdastjórn, eru síðan almennir þingmenn stjórnarflokkanna. Þetta er meiri hlutinn sem styður ábyrgðarlausa valdastjórn.