152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

afstaða ráðherra til söluferlis Íslandsbanka.

[11:40]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Aðeins vegna orða hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur hér rétt áðan þá má alveg enduróma þá ræðu með nokkrum völdum orðum: Hér varð ekkert hrun. Hér varð ekkert tjón, almenningur varð ekki fyrir tjóni sem varð síðan þess valdandi að ríkið fékk bankana í fangið. Varðandi það sem kom fram hjá hæstv. viðskiptaráðherra verð ég að nefna að það var sagt hér: „Ég get upplýst þingið um það að þau höfðu líka þessar áhyggjur“, og vísað í forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra höfðu sams konar áhyggjur af þeirri niðurstöðu sem kæmi úr útboðinu sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur opinberað að hún sá fyrir. Hún kemur í viðtal og segir: Ég hafði uppi varnaðarorð. Ég sá það fyrir að þetta yrði klúður. Og nú er upplýst að fjármálaráðherra og forsætisráðherra höfðu sams konar áhyggjur. (Forseti hringir.) Samt var farið í þessa aðferð sem hefur reynst algjört klúður frá upphafi til enda. Það er orðið mjög brýnt (Forseti hringir.) að þjóðin verði upplýst um það hvað gerðist á þessum ráðherrafundum þegar þessi einkavæðing var ákveðin.