152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

afstaða ráðherra til söluferlis Íslandsbanka.

[11:43]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég ætla nú ekki að tala um fundarstjórn núna. Orð hæstv. viðskiptaráðherra áðan voru mjög merkileg. Ísland hefur fjórum sinnum verið niðurlægt varðandi bankakerfið. Það var árið 2003 þegar ríkisbankarnir voru einkavæddir. Í annað sinn í hruninu 2008. Í þriðja sinn þegar Ísland fór á svarta lista heimsins varðandi aðgerðir þjóða gegn peningaþvætti. Við fórum á lista með þjóðum sem við eigum nákvæmlega enga samleið með. Fjórða niðurlægingin átti sér stað með sölu á hlut í Íslandsbanka nú í mars. Við fengum smá réttlæti eftir hrunið 2008 þegar rannsóknarskýrsla Alþingis kom fram og kvað upp úrskurð sinn, sagði sitt álit á því að nokkrir ráðherrar og embættismenn hefðu verið sekir um vanrækslu. Við fengum líka réttlæti þegar embætti sérstaks saksóknara var stofnað til að taka á þeim sakamálum sem þar voru. Eina leiðin til að reyna (Forseti hringir.) að ná trausti aftur, ná trausti almennings aftur, er að stofnuð verði óháð rannsóknarnefnd. (Forseti hringir.) Það er eina leiðin. Og það er bara tilraun til þess að fá traustið aftur. Ég er ekki að segja að það muni koma.