152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

afstaða ráðherra til söluferlis Íslandsbanka.

[11:48]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mér finnst mikilvægt að það komi fram að varnaðarorð okkar Pírata og annarra í stjórnarandstöðunni komu einmitt fram í umsögnum fyrir sölu bankans en það var ekki hlustað á þau frekar en varnaðarorð viðskiptaráðherra, virðist vera, þannig að það fór lítið fyrir því. En tölum um það sem skiptir máli, segir hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, hvernig við komum í veg fyrir að þetta gerist aftur. Gott og vel. Ég er algjörlega sammála því að það skipti máli líka. En traustið er verðmæti líka. Það er verðmæti. Það eru ekki bara peningar sem skipta máli. Traustið er lím samfélagsins og við erum búin að brjóta það traust. Fjármálaráðherra er búinn að brjóta það traust og það er ekki hægt að treysta honum til að fara í þá vinnu að setja einhvern lagaramma í kringum þetta þannig að svona mál komi ekki fyrir aftur. Traustið er rofið, trúverðugleikinn er enginn. Og meðan fjármálaráðherra situr enn þá verður ekkert hægt að byggja upp traust og tala um (Forseti hringir.) framtíðarskipulag á fjármálakerfinu og hvernig hægt verði að selja ríkiseignir (Forseti hringir.) í framtíðinni á einhvern heilbrigðan og skynsamlegan hátt. Þess vegna skiptir máli að ráðherrar beri ábyrgð og (Forseti hringir.) axli ábyrgð á svona mistökum því að traustið er allt í þessu máli.