152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

afstaða ráðherra til söluferlis Íslandsbanka.

[11:54]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er í hálfgerðu áfalli eftir að hlusta á hæstv. dómsmálaráðherra og kannski best að bregðast við því þegar manni rennur reiðin. En það urðu stór tíðindi hérna áðan þegar hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra upplýsti þingheim um að ekki aðeins hún heldur einnig hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og hæstv. forsætisráðherra hefðu öll haft efasemdir og áhyggjur af þeirri leið sem var farin með sölunni á Íslandsbanka. Nú standa eftir spurningar eins og þessar: Hvernig birtust þessar efasemdir og áhyggjur í framkvæmdinni, þeim ákvörðunum sem fjármála- og efnahagsráðherra tók og lögbundnu eftirliti hans með starfsemi Bankasýslunnar? Hvernig var þessum áhyggjum fylgt eftir? Þessu þurfum við að fá svör við á næstu dögum. Fjármálaráðherra hefur fullyrt í ræðustól að helstu annmarkarnir á söluferlinu hafi legið í skorti á gagnsæi og upplýsingagjöf og nú er kannski að renna upp fyrir okkur betur og betur hvar stærsti og alvarlegasti gagnsæisbresturinn liggur. Hann liggur í því (Forseti hringir.) að ekki aðeins einn heldur þrír ráðherrar leyndu Alþingi Íslendinga (Forseti hringir.) efasemdum og áhyggjum sínum um þetta ferli. Við í stjórnarandstöðunni vöruðum við í umsögnum, þetta er allt saman vel skrásett, (Forseti hringir.) en þau leyndu Alþingi upplýsingum, m.a. ráðherrann sem hefur það lögbundna hlutverk að leggja fyrir Alþingi (Forseti hringir.) greinargerð um alla þætti sölunnar. Hann sagði ekkert.

(Forseti (BÁ): Forseti verður að minna á að ræðutími í fundarstjórn forseta er aðeins ein mínúta en ekki helmingi meira.)