152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

afstaða ráðherra til söluferlis Íslandsbanka.

[11:55]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér var talað um verðmiðann, hvað hann hefði verið góður og fengist gott verð. En staðreyndin er sú að við fengum ekki hæsta mögulega verð. Það liggur algerlega fyrir. Þetta fyrirkomulag sem var notað núna leiddi til þess að við gáfum afslátt, við hefðum getað fengið miklu hærra verð. Það var umframeftirspurn en samt gáfum við „discount“, þetta er discount á ensku, og minnisblað Bankasýslunnar —þeir eru að reyna að hrekja það. Þessi aðferðafræði sem var notuð stenst ekki lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Það er alveg augljóst mál. Ég spurði að því í gær. Það var engin greining sem fór fram á því hvort þessi aðferðafræði stæðist lög, íslensk lög, og það er alveg klárt mál að Bankasýsla ríkisins og fjármálaráðherra skilja ekki muninn á því þegar ríkissjóður, ríkisvald, er að selja hlut í banka og þegar einkaaðili er að gera það. Það sést algerlega af þeim skjölum sem liggja fyrir í málinu. Þessi samningur t.d. við söluráðgjafana, þetta er eitt ómerkilegasta plagg sem ég hef séð á ævinni. (Forseti hringir.) Það er ekki gerð ein einasta ábyrgðarkrafa til söluaðilanna (Forseti hringir.) varðandi það að þeir fylgi lögum. Sumir eru meira að segja sennilega undir erlendum lögum. (Forseti hringir.) Og annað sem er í gangi hérna (Forseti hringir.) — það er dómstóll í London sem mun skera úr um þetta.

(Forseti (BÁ): Það á við um alla hv. ræðumenn hér að ræðutími er aðeins ein mínúta í hvert sinn sem þeir taka til máls um fundarstjórn forseta. )