152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

afstaða ráðherra til söluferlis Íslandsbanka.

[12:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það eru fréttir þegar það er sagt að fjármálaráðherra hafi haft áhyggjur af þessu fyrirkomulagi en gerir síðan ekkert eftir á til að tryggja að ströngustu kröfum hafi verið fylgt, ekki neitt. Af hverju ætti einhver að hafa áhyggjur af hlutum en svo bara: Æ, þegar allt kemur til alls þá skiptir það bara ekki máli? Við erum að tala um ráðherra sem hefur allt þetta vald, ekki bara einhvern þingmann eða einhvern úti í bæ heldur ráðherra sem ber ábyrgð á því að framfylgja skyldum sínum sem ráðherra og þar á meðal að passa upp á að áhyggjur hans raungerist ekki, en það var það sem gerðist.

Svo að ég svari hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur: Í mínu áliti var sagt að mitt álit væri að núverandi ráðherra ætti ekki að fá leyfi til að selja Íslandsbanka þar sem hann hefði sýnt fram á að hann stendur ekki undir þeirri ábyrgð sem því fylgir. Það raungerðist. Hæstv. fjármálaráðherra stendur ekki undir þessari ábyrgð og hann er gjörsamlega að firra sig allri ábyrgð. Það er óásættanlegt.