152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

afstaða ráðherra til söluferlis Íslandsbanka.

[12:02]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra er verðugur fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem umgengst ríkissjóð eins og um sé að ræða eign Sjálfstæðisflokksins sem þau mega sólunda að vild en ekki eign almennings eins og rétt er. Mantran sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir þuldi hér upp úr minnisblaði fjármálaráðuneytisins, um að við hefðum fengið Íslandsbanka endurgjaldslaust, er auðvitað kolröng. Tjón almennings felst í að klúðra þriðju stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar. Tjón almennings felst í að selja á afslætti þegar umframeftirspurn er eftir hlutabréfum í bankanum, eftirspurn sem venjulega hækkar verð en ekki lækkar. Tjón felst í vantrausti almennings á ríkisstjórninni og er þetta alltumlykjandi, enn einu sinni, eins og alltaf er þegar Sjálfstæðisflokkurinn er í ríkisstjórn. Þá hrynur traustið af því að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins kunna ekki að fara með vald sitt. (Forseti hringir.) Aftur og aftur og aftur.