152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[12:40]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langar að rifja upp í ljósi þess að ég trúi ekki öðru en að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson sé enn í húsi, enda nýfarinn úr salnum, svar hæstv. ráðherra við andsvari mínu þegar hann mælti fyrir málinu 1. febrúar síðastliðinn. Hæstv. ráðherra fór í gegnum flutningsræðu sína með þeim upplýsingum sem þar komu fram, eins og bara felst í meginmarkmiðum um svokallaða samræmda móttöku flóttamanna, eða eins segir í nefndaráliti með breytingartillögu, með leyfi forseta:

„Frumvarpinu er ætlað að jafna þjónustu við flóttafólk hvort sem það kemur hingað til lands á eigin vegum, í boði stjórnvalda eða í gegnum fjölskyldusameiningu.“

Þann 1. febrúar síðastliðinn spurði ég hæstv. ráðherra í andsvari, aftur með leyfi forseta:

„Að þessu frumvarpi samþykktu, eins og það liggur fyrir, eru þá réttindi einstaklinga með vernd í öllu þau sömu og réttindi einstaklinga sem koma hingað undir kvótaflóttamannakerfinu?“

Þessari spurningu svaraði hæstv. ráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, svona, með leyfi forseta:

„Já, þarna er verið að samræma þau réttindi sem annars vegar kvótaflóttafólk nýtur og hins vegar þeir sem fá vernd með öðrum hætti.“

Ókei, þetta gæti ekki verið mikið skýrara en þetta og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera svo afdráttarlaus í svörunum. Þá stendur eftir spurningin: Hvers vegna er í mati á áhrifum í greinargerð með frumvarpinu í engu lagt mat á þann kostnað sem af því hlýst að hverfa frá því fyrirkomulagi sem nú er samkvæmt gildandi reglugerð, þar sem réttindi til að mynda til húsnæðis og framfærslu falla niður, ég man ekki hvort 14 eða 15 dögum eftir því eftir að vernd er veitt, og yfir í það að njóta verndar í a.m.k. eitt ár? Það er hægt að ná utan um fjöldann sem mun njóta þessara réttinda, bara eins og staðan er núna. Það eru stórir hópar sem færu undir þennan hatt framfærslu sem snýr að kvótaflóttamannakerfinu. Þetta er hægt að reikna nokkurn veginn upp á punkt. En það er ekki gert heldur er hér í einhverri sýndarmennsku haldið fram að kostnaður vegna málsins í heild verði árlega um 40 milljónir og sá kostnaður felst bara í þremur stöðugildum hjá Fjölmenningarsetri og því að kaupa skrifborð og stóla. Þetta er ekki boðlegt og ég eiginlega skil ekki í hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni, sem ég hef nú þá trú að vilji fara vel með opinbert fé og veit að hann vill það, að ekki hafi verið gerðar athugasemdir af honum sjálfum eða ráðuneyti hans við þetta frumvarp því að það er tvíþættur kostnaður sem er skautað fram hjá. Það er greindur kostnaður sem skiptir sáralitlu máli í heildarmyndinni. Það er algjörlega skautað fram hjá beinum áhrifum af þessum auknu réttindum. Síðan er algerlega skautað fram hjá þeim afleiddu áhrifum sem verða af samþykkt þessa frumvarps eins og það liggur fyrir.

Mér þykir hreinlega hálfóþægilegt að hugsa til þess í ljósi þess að það er verið að leggja málið fram í þriðja skipti og þessi gagnrýni hefur komið fram áður að fjármálaráðuneytið láti reka á reiðanum með þessum hætti hvað kostnaðarmat málsins varðar. Ég ítreka það sem ég hef ég sagt áður: Þetta er ekki boðleg staða fyrir okkur þingmenn að vera í. Það er alveg sama hvorum megin hryggjar gagnvart málinu þingmenn standa, báðir hóparnir, ef það eru hópar, allir sem koma að samþykkt eða höfnun eða synjun þessa máls þurfa að taka ákvörðun út frá réttum forsendum. Hér virðist kerfið leggja sig í líma við það að halda forsendum um fjárhagsleg áhrif frá þingmönnum og þeim sem um málið hafa fjallað í nefnd og á fyrri stigum í umsögnum.

Ég óska eftir því, virðulegur forseti, að vera settur aftur á mælendaskrá.