152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[12:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég var byrjaður að ræða umfang þessa viðfangsefnis og geri það m.a. í framhaldi af yfirlýsingu nokkurra hv. þingmanna, einkum Pírata, um að við getum ekki haft neinar takmarkanir á því hverjum er tekið á móti hér. En fyrir 350.000 manna þjóð, vel stæða þjóð í gjöfulu landi, hljótum við að setja hlutina í samhengi til að átta okkur á því hvað er í vændum ætli menn ekki hafa neinar takmarkanir hér á meðan verið er að auka takmarkanir á öðrum Norðurlöndum og víðar á Vesturlöndum.

Ég var búinn að benda á það að fjöldi þess fólks sem yfirgefur þróunarlönd eykst með aukinni velmegun í þessum löndum, hann minnkar ekki, hann eykst. Fyrir því eru ýmsar ástæður, m.a. betri samskipti og meiri tækifæri til að ferðast. Þetta eru mjög fjölmennar þjóðir. Ef við lítum svo á að allir sem vilja bæta kjör sín — og ég ítreka mikinn skilning á því að fólk í fátækari löndum vilji neyta allra tækifæra til að bæta kjör sín og sinna. Í einu þessara Afríkulanda sem einna flestir hælisleitendur hafa komið frá til Evrópu á undanförnum árum, Nígeríu, búa nú um 200 milljónir. Árið 2045, og það er styttra í það en margir kannski halda, tíminn er fljótur að líða, eftir 23 ár verða Nígeríumenn orðnir 450 milljónir, þeir verða orðnir fleiri en Bandaríkjamenn. Nígería verður orðin fjölmennara land en Bandaríkin, þetta eina Afríkuríki. Í Úganda, og reyndar er í fjölmörgum öðrum Afríkuríkjum þróunin sambærileg, er meira en helmingur íbúanna núna yngri en 15 ára, þeir eru núna 40 milljónir en verða komnir yfir 100 milljónir eftir 30 ár. Í lok þessarar aldar verða 14 af 25 fjölmennustu borgum í heimi í Afríku. Engin Evrópuborg verður á lista yfir 25 fjölmennustu borgir í heimi. Svo var ég búinn að koma stuttlega inn á, svona til samanburðar við þetta allt saman, landið Níger sem liggur norður af Nígeríu. Það er fátækasta land í heimi, en þar er fólksfjölgun mest. Fólksfjölgun er mest í þessu fátækasta landi heims þó að reyndar að íbúar þessa lands leiti ekki mikið til Evrópu sem flóttamenn. Hvers vegna er það? Meginmiðstöð þeirra sem standa í fólksflutningum víða að úr álfunni er í Níger, í borginni Agadez. Hvers vegna fara íbúar þessa ríkis þá ekki sjálfir til Evrópu? Það er vegna þess að þeir eru fátækir, vegna þess að landið er hið fátækasta í heimi. Það kemur heim og saman við það sem ég var að nefna hérna áðan; fólksflóttinn eykst með aukinni velmegun. Þó að það kunni að hljóma þversagnarkennt er það staðreynd málsins.

Nú sjáum við fram á aukinn hagvöxt vonandi, ég ætla rétt að vona það, frú forseti, í mörgum þróunarríkjum og Vesturlöndin, mörg hver, leggja mikla áherslu á uppbyggingu þar, reyndar einkum á sviði auðlindavinnslu, Kínverjar kannski ekki hvað síst. Svoleiðis að það má gera ráð fyrir þessu tvennu samhliða, mjög verulegri fólksfjölgun og auknum hagvexti, auknum tækifærum til þess að ferðast og flytja sig. Hvernig er Evrópa, er Ísland í stakk búið til að taka á þessari þróun? Alls ekki vel og allra síst ef menn halda áfram eins og þessi ríkisstjórn að leggja fram mál sem eru til þess fallin að búa til hættulega hvata, ýta undir starfsemi smyglaranna, á meðan stjórnvöld til að mynda í Danmörku (Forseti hringir.) ganga býsna langt í því að gera hvað þau geta til að landið verði ekki áfangastaður slíkra hópa.