152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[12:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langar í þessari ræðu minni að rifja upp drög að reglugerð sem þáverandi félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, setti inn til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda síðastliðið vor. Úrvinnslu þeirra umsagna lauk í september 2021. Til að ramma inn hversu augljós skilningur þess ráðherra á þeim tíma og augljóslega þess sem fer með málaflokkinn núna er á því að verið sé að stækka þann hóp sem nýtur fullra þjónustu á grundvelli kvótaflóttamannakerfisins þá vil ég vitna í drögin að þessari þingsályktunartillögu sem voru send út til umsagnar. Þessi þingsályktunartillaga hefur ekki verið lögð fram að því ég best veit, ég held að hún sé ekki neins staðar í biðstofu ríkisstjórnarflokkanna en er væntanleg á einhverjum tímapunkti. Í þessum drögum á bls. 24, í e-lið 5.1, undir yfirskriftinni Samræmd þjónusta við flóttafólk og þá sem hlotið hafa alþjóðlega vernd, segir um þessa tvo hópa, þ.e. flóttamenn undir hatti kvótaflóttamannakerfisins og hina hópanna sem eru fjórir í 2. gr. frumvarpsins sem nú er rætt um, með leyfi forseta:

„Nokkur munur hefur verið á þjónustu við þessa tvo hópa en í megindráttum felst sá munur í því að ríkissjóður greiðir starfsmannakostnað sveitarfélaga vegna þjónustu við kvótaflóttafólk á fyrsta árinu en ekki vegna þeirra sem koma á eigin vegum, og sveitarfélög útvega leiguhúsnæði þegar um ræðir kvótaflóttafólk en aðrir þurfa að finna sér húsnæði sjálfir. Unnið hefur verið að því að jafna og samræma þjónustuna við allt flóttafólk og er nú verið að hefja innleiðingu á reynsluverkefni til 12 mánaða um samræmda móttöku flóttafólks hjá áhugasömum sveitarfélögum.“

Þetta er skrifað vorið 2021. Samráði vegna þessa plaggs lauk einhvern tímann í september 2021. Hér segir að sveitarfélög útvegi leiguhúsnæði þegar um ræðir kvótaflóttafólk en aðrir þurfi að finna sér húsnæði sjálfir. Það væri mikill munur ef hæstv. ráðherra væri hér í sal, og ég gæti meira að segja lofað að þjarma ekki mjög að honum kæmi hann í andsvar, og myndi bara skýra hvort það sé nokkuð hægt að skilja þessa áætlun stjórnvalda öðruvísi en svo að það verði töluvert mikil réttindaaukning hjá þeim hópum sem verða felldir undir kvótaflóttamannakerfið. Þá með vísun í það hvernig reglugerð nr. 540/2017, reglugerð um útlendinga, listar þetta upp, eins og staðan er núna. Þar segir í 23. gr. undir yfirskriftinni Þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd, með leyfi forseta: „Þjónusta fellur niður 14 dögum frá birtingu ákvörðunar um að veita einstaklingi vernd …“

Það segir hér í sömuleiðis í þessum drögum að þingsályktunartillögu hæstv. ráðherra, sem er væntanlega til vinnslu í ráðuneytinu núna, að frá þessari stöðu, að þjónusta falli niður 14 dögum frá birtingu ákvörðunar um að veita einstaklingum vernd, verði farið til þess horfs að allt flóttafólk sem hefur öðlast vernd eigi rétt á sérstakri aðstoð að lágmarki í eitt ár frá komu þess til landsins. Það innifelur, eins og ég kom inn á hér áðan, fjárhagsaðstoð, félagslega ráðgjöf, húsnæði ásamt nauðsynlegu innbúi og síma, menntun, einkum íslenskukennslu, móðurmálskennslu og samfélagsfræðslu, leikskólakennslu, tómstundastarf, heilbrigðisþjónustu og tannlækningar, þjónustu túlka, aðstoð við atvinnuleit, önnur nauðsynleg aðstoð. Fyrir utan bara núverandi stöðu, hvaða áhrif þetta hefði á húsnæðismarkað þar sem staðan er mjög snúin, hvort í einhverju hafi verið hugsað fyrir mögulegum lausnum í þeim efnum. En ég bið hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.