152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[13:37]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að efna til sérstakrar umræðu um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Sú umræða er mikilvæg og ég fagna því að stjórn sem stjórnarandstaða ræði málið á málefnalegan, gagnrýnan og upplýsandi hátt. En virðulegur forseti, af hverju erum við að ræða þessi mál? Það er þannig að í stjórnartíð Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins var farið í losun fjármagnshafta, fjármagnshafta sem þurfti því miður að setja á í kjölfar fjármálahrunsins þar sem útflæðið var það mikið að það hefði rústað gjaldeyrismarkaðinum. Það þurfti sem sagt að setja þessi fjármagnshöft. Ljóst var að þáverandi stjórnvöld töldu nauðsynlegt að opna fyrir frjálsa fjármagnsflutninga við umheiminn. Stjórnvöldum var nokkur vandi á höndum því að hinar svokölluðu ISK-eignir, þ.e. innlendar krónueignir erlendu kröfuhafanna, voru mjög umfangsmiklar, það umfangsmiklar að ekki var hægt að losa um fjármagnshöftin nema þeir létu íslenskum stjórnvöldum í té allar krónueignir sínar. Ein af þessum krónueignum var Íslandsbanki sem var í höndum slitabús Glitnis. Alls námu þessar eignir um 650 milljörðum kr. og var Íslandsbanki þá metinn á 185 milljarða. En til þess að hægt væri að fara í þessa æfingu voru hönnuð af stjórnvöldum svokölluð stöðugleikaskilyrði sem miðuðu að því að útgreiðslur til kröfuhafa yrðu gerðar hlutlausar gagnvart greiðslujöfnuði þjóðarbúsins. Kröfuhafarnir létu Íslandsbanka frá sér en í staðinn héldu þeir erlendum eignum og gátu komið þeim í verð til þess að fjármagnshöftin yrðu afnumin. Hinn alþjóðlegi lögfræðingur Lee Buchheit nefndi þetta samning aldarinnar.

Af hverju, virðulegi forseti, er ég að rifja upp þessa sögu? Við værum ekki að ræða Íslandsbankasöluna ef ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hefðu ekki ráðist í þetta verk sem var allt annað en sjálfsagt að gæti gengið eftir. Ákveðnir stjórnmálaflokkar sem eiga sæti á Alþingi Íslendinga vildu fara allt aðra leið, leita til Evrópska seðlabankans um að fá fyrirgreiðslu og skuldsetja ríkissjóð enn frekar í stað þess að ná í eignir fyrir ríkissjóð og fyrir fólkið í landinu.

Virðulegi forseti. Framkvæmd útboðsins var að mörgu leyti í samræmi við það sem var kynnt og markmiðin náðust að einhverju leyti. Í fyrsta lagi var sett markmið um dreift eignarhald. Það tókst. Í öðru lagi var nefnt að það væri mikilvægt að bankinn væri skráður í Kauphöllinni og það tókst. Í þriðja lagi að fá gott verð og það tókst. Þegar Íslandsbanki fellur í skaut ríkissjóðs Íslands var hann metinn á 185 milljarða eins og ég nefndi áðan. Virði stöðugleikaframlagsins er nú komið í 203 milljarða og ef við bætum við arðgreiðslunum, sem eru 72 milljarðar, er eignin orðin að 275 milljörðum. Til að setja þetta í eitthvert samhengi við ríkisfjármálin þá er þetta eins og þreföld útgjöld til menntamála þjóðarinnar, þ.e. útgjöld til menntamála þjóðarinnar á þremur árum. Þetta eru gríðarlegar fjárhæðir.

Virðulegur forseti. Annmarkar á sölunni að mínu mati eru þeir að það skorti á upplýsingagjöf til almennings og gagnsæi var ekki ásættanlegt. Í mínum huga á ekki að notast við þessa aðferðafræði enda hefur hún rýrt traust í samfélaginu og það er betra að nota almenna leið. Varðandi útfærslu, þ.e. hvort gera ætti lágmarkskröfu til fjárfesta til að tryggja heilbrigt eignarhald, þá voru þessir þættir ræddir en við ráðherrarnir vorum fullvissuð um af Bankasýslunni að þessi framkvæmd væri í fullu samræmi við alþjóðleg viðmið og hefði t.d. verið notuð í Hollandi og það hefði bara gengið vel.

Virðulegi forseti. Það hefur verið brugðist ágætlega við mínum sjónarmiðum. Það er hluti af stjórnmálum að takast á um mismunandi stefnur og strauma og aðferðafræði. Málefnalegar umræður fóru sannarlega fram innan ráðherranefndarinnar. Varðandi þá ákvörðun að leggja niður Bankasýsluna þá var ég að fullu upplýst um þá ákvörðun. Ég tel hins vegar að það sé mjög mikilvægt að við sjáum hvað Ríkisendurskoðun segir og hvað Seðlabankinn segir um málið í heild sinni. Varðandi ábyrgð þá hefur fjármála- og efnahagsráðherra sagt það sjálfur (Forseti hringir.) að hann beri pólitíska ábyrgð á málinu. Og að lokum, (Forseti hringir.) virðulegur forseti, vil ég segja að ég er mjög ánægð með þá djúpu, gagnrýnu og upplýstu umræðu (Forseti hringir.) sem bæði stjórn og stjórnarandstaða hafa átt um málið.