152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[13:54]
Horfa

Erna Bjarnadóttir (M):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra fyrir yfirferðina um yfirtöku á Íslandsbanka. Að hlusta á það hér í þingsal í dag að þetta hafi gerst í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, í þessari röð, er frekar ótrúlegt því að þetta gerðist vitaskuld í ríkisstjórn hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem þá var forsætisráðherra Framsóknarflokksins og hæstv. ráðherra var einn af þeim sem þarna stóðu að verki. Nú er komið í ljós að hlutabréfin í Íslandsbanka voru ekki einu sinni seld til valins hóps fjárfesta, eins og kynnt var á fundi fyrir ráðherranefnd um efnahagsmál 4. febrúar, og fleiri komust að borðinu — þó allir nema einhverjir tveir sem erlendir söluráðgjafar lögðu til að ekki yrði hleypt að. Fór þá salan 22. mars fram í samræmi við það sem kynnt var? Ég spyr enn og aftur. Bankasýslan sjálf hefur sagt þetta; framkvæmd útboðsins fór fram eins og henni hefur verið lýst af hálfu stofnunarinnar frá upphafi til loka. Samt höfðu allir ráðherrarnir í nefndinni um efnahagsmál áhyggjur af þessu, eins og fram kom í máli hv. þm. Sigmars Guðmundssonar í morgun. Sjálf kem ég þessu engan veginn heim og saman, eða eins og fjósamaðurinn sagði: Hér rekst hvað á annars horn eins og graðpening hendir vorn. Það má undrum sæta að engin handbók eða ítarleg verklýsing hafi verið til á ferlinu, eða var sjónarhornið um þröngan fjárhagslegan ávinning það eina sem skipti máli? Gekk þetta allt út það að verðbréfadrengirnir gætu hrósað sér af öllum milljörðunum sem þeir fengu fyrir söluna og skotið upp nokkrum Hallgerðum á Hlíðarenda á eftir? Nei, hæstv. forseti. Flugeldasýningar eru ekki það sem við þurfum hér. Við þurfum rannsóknarnefnd Alþingis. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)